Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

Ferðaþjónustan á Íslandi í kjölfar Covid-19.

[11:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ferðaþjónustan hefur vaxið með ofurkrafti, eins og við þekkjum, og snertir alla landsmenn. Fjöldi tækifæra hafa sprottið upp sem mikilvægt er að nýta vel til að skapa fjölbreytt störf og öflug fyrirtæki, bæði stór og smá. Það er mikilvægt að við byggjum upp innviði í takt við þessa þróun og sköpum þessari stærstu útflutningsgrein okkar gott og heilbrigt rekstrarumhverfi sem skilar þjóðinni arði og getur borgað góð laun. Það er mikilvægt að við komum í veg fyrir massatúrisma sem náttúran og innviðir ráða bara alls ekki við. Það verður að skoða einhvers konar stýringu á vinsælustu viðkomustaðina og beina ferðafólki líka að þeim fjölda frábæru viðkomustaða vítt og breitt um landið sem bjóða upp á fjölbreytta og fallega náttúru og vert er að heimsækja.

En náttúran má aldrei bera skaða af of miklum ferðamannaiðnaði eins og við stundum köllum það. Við í Vinstri grænum höfum talað fyrir því að rík krafa sé gerð til erlendra ferðaþjónustu sem hefur starfsemi hér á Íslandi með tilliti til aðbúnaðar starfsfólks, upplýsingagjafar, farartækja, hæfni leiðsögumanna og annarra öryggisþátta. Það hefur verið okkar leiðarljós að byggja hér á landi upp vandaða og faglega ferðaþjónustu. Ég kalla því eftir því að ráðherra beiti sér sérstaklega fyrir því að leiðsögumenn fái góða menntun og þeim sé boðið upp á góða menntun. Það er gerð krafa á slíkt víða um heim. Það er allra hagur að ferðaþjónustan og opinberir aðilar vinni saman að uppbyggingu þessarar ört vaxandi atvinnugreinar okkar Íslendinga, okkur öllum til hagsbóta.