Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sjávarútvegsmál.

[16:28]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er nú verra að þurfa að elta ólar við tölur og meðferð á þeim og ég hvet hv. þingmann líka til að leggja inn skriflega fyrirspurn svo að við getum skipst á skeytum í gegnum þingskjöl. Það er þannig, af því að hv. þingmaður talar um 8.500 tonn, að við þau bættust um vorið 1.500 tonn og síðan 1.074 um sumarið þannig að niðurstaðan varð 11.074 tonn svo að því sé haldið til haga.

Annars vil ég bara þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu og hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni sem var sannarlega mjög fjölbreytt. Við fórum allt frá því að ræða um skelbætur og arðsemi og yfir í það að tala um umhverfismál. Svo komu hér sjómenn og ræddu málið út frá sinni miklu og mikilvægu reynslu og þekkingu, út frá bæði reynslunni af byggðakvótanum og af strandveiðunum. Við töluðum um fjármögnun Fiskistofu, við töluðum um mikilvægi hafrannsókna, við töluðum um tímabundna nýtingu sem hv. þm. Viðreisnar nefndi hér. Hv. þm. Pírata nefndi í sinni ræðu mikilvægi þess að halda umhverfismálunum alltaf til haga. Hér var rætt um sjávarbyggðir, byggðafestu og margar aðrar hliðar málsins.

Fyrst og fremst voru hér jákvæð sjónarmið sem lutu að því víðfeðma starfi sem er í gangi á vegum ráðuneytis míns. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þeirri vinnu og þeim sem það hafa verið að gera en minna okkur öll á að þegar við erum að tala um svo stóran atvinnuveg sem hér er annars vegar, svona mikil og stór inngrip í auðlindir hafsins, þá er grundvöllur þessarar nýtingar alltaf þekking á vistkerfum sjávar. Við byrjum alltaf á umhverfissjónarmiðunum, svo þurfum við að gæta að arðseminni og ekki síður samfélagsþáttum. Hinar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar verða að vera þarna að leiðarljósi.

Ég þakka annars hv. þingmönnum fyrir góða umræðu, forseta fyrir góða fundarstjórn og hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu og treysti því að hún muni gera það ítrekað.