Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[19:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir góða ræðu sem var að vísu ekkert um efnið sem hér er til umræðu en allt í lagi með það, ræðan var góð. En ég hefði gjarnan viljað vita hvort hv. þingmaður hafi verið sammála því á sínum tíma að fara þessa tilboðsleið, fara í þetta söluferli og hvort hann telji að það hafi heppnast vel eins og það var framkvæmt af hálfu Bankasýslunnar. Eða telur hann að það hafi allt verið tóm della? Það er stóra spurningin. Hver er afstaða þingmannsins til sölunnar, hvernig tókst til og er eitthvað núna sem gefur okkur tilefni til þess að skipa rannsóknarnefnd? Ég sé að Miðflokkurinn er ekki á neinu áliti, hvorki meiri hluta né minni hluta, er það ekki rétt hjá mér? Þess vegna ætla ég að reyna að toga það upp úr hv. þingmanni hér í ræðustól hver raunveruleg afstaða hans er til þessa máls.