Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[20:00]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er búinn að klóra mér svolítið í skallanum yfir þessari kröfu, þessari niðurstöðu minni hlutans um að skipa þurfi rannsóknarnefnd og velti fyrir mér af hverju. Ég vil byrja á því að taka það fram að þegar svona ferli fer af stað þá er það ákveðið hér á þinginu, svo kemur ítarleg greinargerð fjármálaráðherra kringum það, sem ég hef nú grun um að fæstir hafi lesið sem hér hafa tekið til máls, og svo kemur niðurstaða Ríkisendurskoðunar (Gripið fram í.) um að ekkert í þessu ferli sem varðar fjármálaráðherra eða Bankasýsluna gefi okkur tilefni til þess að fara í slíka vegferð sem rannsóknarnefnd er. Þetta finnst mér augljóst í málinu. Auðvitað er það þannig að þegar farið er í svona vegferð þar sem hæstbjóðanda er ekki selt, farin sérstök leið, tilboðsleið sem byggist mjög mikið á huglægu mati, þá er mjög líklegt að það komi einhver gagnrýni, ekki síst frá þeim sem yfir höfuð vilja ekkert selja hlut ríkisins í bankanum. Þessi leið gefur þeim tilefni til þess að þyrla upp moldviðri sem heldur betur hefur verið gert alveg frá upphafi í þessu máli og raunverulega áður en nokkuð var skoðað. Fyrir mér hefur þetta verið einhver blanda af upplýsingaóreiðu og almennu þusi, sem ég geri svo sem enga athugasemd við, það er bara hluti af pólitíkinni, en ég er alltaf að reyna að finna þetta út: Af hverju rannsóknarnefnd? Ætla menn að fá rannsóknarnefnd til að kveða upp einhverja lögfræðilega niðurstöðu? Það gerir það enginn nema dómstólar. Hvernig dettur mönnum í hug að það þurfi rannsóknarnefnd til að segja okkur hver lögfræðilega rétta niðurstaðan er? Hér höfum við skýrslu Ríkisendurskoðunar sem segir einfaldlega að þetta hafi tekist vel, það hafi verið farið eftir þeim reglum sem þingið sjálft ákvað. Ekkert í þeirri rannsókn gefur okkur tilefni til þess að ætla að menn hafi farið á svig við lög eða neitt. Ef það hefði verið, ef eitthvað hefði komið upp — eins og kom upp og hv. þm. Sigmar Guðmundsson nefndi í ræðu sinni með þýska bankann í kringum söluna á Búnaðarbankanum, þá kom eitthvað nýtt upp sem gaf tilefni til þess. Hér er ekkert slíkt. Það er kannski kjarni málsins. Hér er ekkert slíkt.

Ég sé hérna að minni hlutinn vill láta rannsaka hvort stjórnsýslulögum hafi verið fylgt, jafnræðisreglu, rannsóknarreglu, hæfisreglum, hvort um sé að ræða ólögmætt valdframsal ráðherra til Bankasýslu, hvort farið hafi verið eftir lögum nr. 155/2012. Á rannsókn Jóns og Gunnu að segja okkur það? Það gerist ekki þannig, ágætu þingmenn. Það gerist ekki þannig.

Þetta er kannski það mikilvægasta í þessu öllu saman. Hér er meginniðurstaðan og við eigum að horfa á aðalatriðin, ekki hanga í einhverju svona, hvort pabbi fjármálaráðherra hafi síðan keypt einhvern hlut. Ef hann uppfyllir skilyrðin þá bara gerir hann það. Það er ekki fjármálaráðherra sem er að selja heldur er það Bankasýslan. Það er Bankasýslan. Alþingi ákvað það að Bankasýslan færi með hlut ríkisins. Þetta er kjarni málsins. Að velta svona upp úr sér — rannsóknarnefnd mun ekkert leysa úr neinu af þessu. Þið getið alveg gleymt því, kæru þingmenn. Það sem skiptir máli er að hér var alvöruniðurstaða um að þetta hafi gengið vel, hagsmunir ríkisins hafi verið tryggðir. Það er ekkert þannig óeðlilegt í þessu sem gefur okkur tilefni. Vissulega er það alltaf þannig þegar verið er að selja hlut eða fara í framkvæmd að þá orkar eitthvað tvímælis, við komumst ekkert hjá því. Við getum velt því fyrir okkur: Hefðum við átt að gera þetta öðruvísi? Var þetta gert nákvæmlega rétt? Voru sölufulltrúarnir að gera nákvæmlega rétt? Það verður fundið út úr því. Við þurfum enga rannsóknarnefnd til þess, gerum það bara.

Þetta er í raun og veru í mínum huga ekki það mikil gagnrýni á ferlið, að megninu til er þetta þannig að það eru stórir hópar eða nokkrir flokkar sem geta bara ekki hugsað sér að selja hlut ríkisins í þessu hlutafélagi af því að menn trúa því að við séum að láta eitthvað frá okkur til einhvers. Við erum að gefa eitthvað, það er verið að rífa af okkur eitthvað. (BLG: Hvaða flokkar eru það?) Það eru einhverjir flokkar. (BLG: Einhverjir hverjir?) Það eru bara margir flokkar hér, maður heyrir það bara á umræðunni, (Gripið fram í.) — nei, nei — sem eru á móti því, hafa alla fyrirvara á því að selja hlut ríkisins. (BLG: Flokkur fólksins?) Nei. (Gripið fram í: Ekki samtal.) Það er bara þannig. Það er bara veruleikinn sem við eigum að viðurkenna. Þetta er alltaf sami pirringurinn. Þið getið ekki hugsað ykkur það að ríkið eigi ekki allt, (Gripið fram í.) að einhver annar gæti grætt. Þetta er þessi eilífa hægðatregða sem er að drepa hér marga, búin að gera það í áratugi. (Gripið fram í.) Nei, þú ert búinn að vera til í áratugi.

Ég get alveg fullyrt það og það er kjarni málsins í þessu: Hér tókst vel til. Það er niðurstaðan. Meginniðurstaðan er að það tókst vel til. Við getum velt því upp að upplýsingaskyldan var kannski ekki upp á það besta. Við hefðum getað haft hlutina einhvern veginn öðruvísi í kringum söluna. Gott og vel, ég geri enga athugasemd við það, menn geta tuðað yfir því endalaust mín vegna og margt kannski til í því. En að fara að skipa hér mörg hundruð milljóna króna rannsóknarnefnd — til hvers? Heldur rannsóknarnefndin, Jón og Gunna sem eru í henni, að hún sé til þess bær að segja hvaða lög hafa verið brotin og það verði bara niðurstaðan? Ónei, það er ekki þannig. Ég skora á menn almennt að fara vel yfir þetta ferli á þinginu á sínum tíma, ég þurfti nú að kynna mér það, og fara yfir greinargerð fjármálaráðherra í þessu máli. Hvert ætluðum við að fara? Hvernig var það framkvæmt?

Ég ætla að nota tækifærið hér í lokin og gera það sem enginn hefur gert; að hrósa Bankasýslunni sérstaklega fyrir vel unnin störf. Ég held að hún hafi staðið sig í grunninn frábærlega þó að ég sé ekki hrifinn af því að hafa Bankasýslu, ég er ekki hrifinn af því yfir höfuð að búa til einhverja armslengd, enda gerir stjórnarskráin ekkert ráð fyrir því. En ég verð að segja að í þessu máli hefur hún staðið sig frábærlega. Ef menn væru ekki búnir að ákveða að leggja hana niður þá myndi ég eiginlega vilja veita henni orðu.