Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[20:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, mér er alls ekki nákvæmlega saman um það. Mér er mjög annt um skattfé og mér er mjög annt um eignir ríkisins og þetta snýst ekkert um 50 milljarða. Hér er niðurstaða trúnaðarembættis Alþingis að í öllum aðalatriðum hafi þetta gengið vel og hagsmunum ríkisins sé bara borgið. Um það snýst málið. Svo eru menn að hártoga um einhver algjör aukaatriði, hvort upplýsingaskyldan hafi verið nægilega góð. Gott og vel. Það má vel vera að sumt af þessu hefði mátt gera betur, eins og alltaf er, en við erum að ræða hvort það sé nauðsynlegt að skipa rannsóknarnefnd, og talandi um fjárreiður ríkisins; upp á mörg hundruð milljónir, (Gripið fram í.) til að segja okkur hvað? (Gripið fram í.) Við vitum alveg hvað rannsóknarnefndir hafa kostað. Þetta yrði ekki fyrsta rannsóknarnefndin, hv. þingmaður. Við vitum nákvæmlega hvað þær kosta. Við eigum ekki að vera að þessu. Við eigum að vera glöð og fegin yfir því að það tókst þrátt fyrir allt svona vel að ljúka þessu máli og halda áfram að selja þennan hlut sem ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um í raun. En við getum rifist hér endalaust um það sem ekkert liggur fyrir um og engin ástæða er til að ætla, að það séu einhver lögbrot hér og þar eða einhver lögfræðilegur ágreiningur um hitt og þetta. Það er engin ástæða til þess. Það hefur ekkert enn þá gefið okkur tilefni þess. Ef það gerist einhvern tíma síðar, eitthvað sem gefur okkur tilefni til þess, þá skal ég fyrstur samþykkja rannsóknarnefnd. En þetta er auðvitað bara orðið, hv. þingmaður, þreytt þus í mínum huga um ekki neitt eða mjög lítið, skulum við segja.