Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[20:23]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvaða fúkyrðaflaum er verið að tala um? Að menn séu með harðlífi, harðlífissvip? Þetta eru menn að tala um sem fúkyrði, fólk sem venjulega kallar aðra spillta og óheiðarlega og hvað eina. (Gripið fram í.) — Já, þú hefur látið að því liggja, kæri þingmaður, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Við skulum bara fara yfir ræðurnar þínar. Það er verið að ýja að því endalaust og auðvitað sumir þingmenn betur en aðrir. Ég er bara að segja það að þessar athugasemdir sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru ekki þess eðlis að þær kalli á skipun rannsóknarnefndar til að fara yfir þau atriði sem minni hlutinn fjallar um hér. Það á að reyna að hanga á þessu eins og hundar á roði til að reyna að rugla almenning eins og hægt er, eins og það sé verið að hafa af þeim pening, þegar fyrir liggur að þessi sala tókst vel og ríkissjóður ekki að tapa neinu. Ef menn vildu endilega skipa einhverjar úrskurðarnefndir ættu menn t.d. að velta fyrir sér hvort það sé ekki kominn tími á úrskurðarnefnd til að fjalla um það af hverju stjórnmálamenn hafa verið gjörsamlega vonlausir í að klára rammaáætlun, tryggja raforkuflutninga um landið. Ætli það hafi ekki kostað þjóðina tugi milljarða á ári að stjórnmálamenn hafi ekki gert neitt í því? Ég skal styðja rannsóknarnefnd í því. (Gripið fram í.) Menn hafa staðið gegn þessu hér, meiri hluti þingmanna mjög lengi. Ef það væri einhvers staðar ástæða til að skipa rannsóknarnefnd þá væri það í því. En það er ekkert, og það er kjarni málsins, í þessu áliti Ríkisendurskoðunar sem gefur okkur tilefni til þessarar löngu umræðu, sem að vísu fæstir stjórnarandstæðingar hafa tekið þátt í og það hefur verið meiri hluti hér í þingsal frá stjórnarmeirihlutanum. (Forseti hringir.) Þetta er meira að segja dautt í ykkar huga.