Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:37]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ýmislegt sem vekur athygli mína í þessu. (Gripið fram í: Já, vissulega.)Já, en nú ætla ég bara að hafa stuttar spurningar tvær.

„Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að boðuð lagasetning um nýtingu vindorku hérlendis undirstriki þá meginreglu að vindurinn sé auðlind í sameign þjóðarinnar …“

Hvar er þessa meginreglu að finna, takk fyrir? Er þetta þannig í öðrum löndum t.d. að vindurinn sé í eignarrétti þjóðarinnar? Ég efast um að eignarréttur þjóðar sé neins staðar nema á Íslandi einhvers staðar.

Hin spurningin, þá segir í þessari greinargerð:

„Hvað varðar landnæði og gjaldtöku af auðlindum er vert að vísa til ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA frá 20. apríl 2016 sem segir að endurgjaldslaus afnot af landi og auðlindum í eigu hins opinbera feli í sér ríkisaðstoð og stangist á við EES-samninginn.“

Þá spyr ég: Eruð þið að halda því fram að með því að rukka fólk ekki fyrir afnot af vindinum núna (Forseti hringir.) feli það í sér ríkisaðstoð og brot á samningum?