Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég veit eiginlega ekki hvert ég er kominn. Við þurfum að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á sínum auðlindum. Hvernig eignaðist þjóðin vindinn? Halda menn virkilega að eignarréttur myndist þannig að menn komi hér á þing og segi „heyrðu, já“? Það gerist auðvitað ekki þannig. Við þurfum engan eignarrétt. Við stjórnum þessu landi á grundvelli fullveldisréttarins. Ég þarf ekkert að eiga allt, ég þarf ekki að eiga sólina sem skín. Ætlar þjóðin að eiga sólina sem skín í garðinn minn? Nei, ég segi: Hættið þessu, þið eruð í fornöld. Skattleggið þetta bara eins og þið viljið skattleggja allt en þið þurfið ekki að eiga þetta, alveg eins og við þurfum ekki að eiga fyrirtækin, eins og margir forverar ykkar vildu líka eiga. Þjóðin á allt, þjóðin á öll atvinnutækin, þjóðin á vindinn, þjóðin á sólarljósið. Hvað ætlum við að gera þegar þjóð einhvers staðar í vestri ákveður að hún eigi lægðina sem myndast hjá henni? Svo fer bara lægðin hingað til Íslands með fullt af rigningu og vindi. Eigum við að borga þeim fyrir það? Nei, þetta er auðvitað delluhugmynd. Við skulum bara hætta þessari dellu og segja: Við bara skattleggjum þetta af því að við erum fullvalda þjóð og við ráðum því. Takk fyrir.