Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[17:01]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um það að ég get ekki selt vindinn sérstaklega sem kemur í garðinn hjá mér, ekki heldur laufin. Ég get ekki selt það. Það er algjörlega vonlaust fyrir mig að selja það. Ég segi bara ekkert frekar en að þjóðin eigi bara andrúmsloftið sem ég anda að mér og ætli að fara að rukka mig fyrir það. Nei, ég segi bara: Við náum okkar tilgangi með því að segja að atvinnurekstur og verðmæti sem skapast, hvort sem er af raforkuframleiðslu eða öðru, ég tala nú ekki um ef við getum aukaskattað það ef það er takmörkuð auðlind og útvaldir að nýta hana — en ekki vindinn, ekki sólarljósið, ekkert slíkt. Skattleggið vindganginn frekar.