Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:25]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Sigmar Guðmundsson kom hérna upp og sagði að settur ríkisendurskoðandi sendi það hingað sem hann vildi að kæmi til almennings þá er miklu einfaldara fyrir settan ríkisendurskoðanda að gera það bara sjálfur. Birta þetta bara sjálfur. Hann hefur sagt það sjálfur að hann sé bundinn trúnaði og þagnarskyldu um þetta. (SGuðm: …forseti birta hana.) Hann getur ekki sett það á annan. Það er bara mjög einfalt. Ef hann er bundinn trúnaði og þagnarskyldu þá er forseti þingsins það líka. Þessi vinna er auðvitað á forræði ríkisendurskoðanda. Þegar settur ríkisendurskoðandi hættir rannsókn í miðju kafi og annar tekur við henni þá er bara ein skýrsla, það er bara einn ríkisendurskoðandi og ein niðurstaða. Allt annað — það er bara verið að þyrla upp einhverju. Það er niðurstaðan og þannig á það að vera. En þetta mál hér fjallar ekkert um það heldur fjallar (Forseti hringir.) um það hvernig þingskapalögin eru. Þau eru mjög skýr, ágætu þingmenn, og það er bara ein leið að fara að lögum þar.