153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

aðgerðir varðandi orkuöflun og orkuskipti.

[15:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra. Við þurfum að hafa mjög skýrar leikreglur um hvað fer til þjóðarinnar, hvert auðlindagjaldið er, hvað fer til nærsamfélagsins. Viðreisn hefur ítrekað að við eigum að láta þá sem nýta okkar auðlindir fá hluta af innviðagjaldinu sem greitt er fyrir aðganginn að auðlindunum. Síðan er það þannig — það er ekki ég sem er að segja þetta — að árið 2020, 2021, 2022 og nú síðast á ársfundi Landsvirkjunar er m.a. forstjóri Landsvirkjunar að kalla eftir því að stjórnvöld sendi skýr skilaboð. Ég hvet þá hæstv. ráðherra til að láta reyna á meiri hluta þingsins til að ýta einhverju áfram. Sama ríkisstjórn og er núna hafði á síðasta kjörtímabili tækifæri til að klára m.a. rammaáætlun en það var ekki gert fyrr en núna. Við þurfum að koma okkur af stað úr þessari kyrrstöðu, upp úr þessum hjólförum, ef okkur er í rauninni alvara með því að ná markmiðum okkar um orkuskipti árið 2030. Miðað við orð þeirra sem standa í iðnaðinum, m.a. innan Landsvirkjunar, þá er alveg ljóst að háleitum markmiðum ríkisstjórnarinnar verður ekki náð með þeirri kyrrstöðu í pólitík (Forseti hringir.) sem þessi ríkisstjórn er að boða. Það er enn og aftur samsetning ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) sem er fyrirstaða í þessu. Hún er fyrirstaða í efnahagsmálum, varnarmálum, heilbrigðismálum og núna í orkumálum.