Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:54]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir framsöguræðuna. Nú hefur það komið fram í máli hv. þm. þingmanns og fleiri, þar á meðal hæstv. dómsmálaráðherra, í opinberri umræðu að vandinn sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi sé ekki síst gríðarlegur fjöldi fólks sem sækir um vernd. Hefur hv. þingmaður sérstaklega kveinkað sér undan fjölda fólks sem leitar hingað frá Venesúela sem, ef ég skil rétt, hv. þingmaður telur ranglega að séu efnahagslegir flóttamenn en eru að fá hérna viðbótarvernd vegna hættuástands í heimaríkinu.

Spurningin sem mig langaði til að beina til hv. þingmanns er: Hvaða ákvæði í þessu frumvarpi telur hann að muni stemma stigu við þeim fjölda sem hingað leitar frá þeim ríkjum sem spanna yfir 90% umsækjenda, sem eru Úkraína, Venesúela, Sýrland, Palestína og Sómalía? Þetta er fólk sem fær vernd hér á landi og þar af leiðandi er það ekki í þjónustu nema bara í örstuttan tíma, þannig að svipta það þjónustu hefur ekki fælingaráhrif. Hvað nákvæmlega í þessu frumvarpi á að minnka aðsókn raunverulegs flóttafólks hingað til lands?