Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:26]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins þetta mál sem við erum nú að taka til 3. umr. í þinginu. Það er auðvitað búið að tala mikið um þetta og margar ræður hafa verið fluttar, m.a. af mér, þar sem farið hefur verið yfir mörg efnisatriði. En mig langaði hins vegar að byrja á því núna að tala aðeins um vinnubrögðin í allsherjar- og menntamálanefnd þennan veturinn. Ég vil byrja á því að taka það fram að mér hefur mestan part fundist vera vilji fyrir því að kalla til gesti þótt vissulega hafi verið mikill áherslumunur á meiri og minni hluta í því. En mér fannst algerlega keyra um þverbak á síðustu metrunum áður en málið var tekið út og sett hér inn í 3. umr. og ég kom aðeins inn á þetta í andsvari áðan. Þetta var svolítið furðuleg atburðarás. Það var þannig að Vinstrihreyfingin – grænt framboð boðaði að gerðar yrðu einhverjar efnislegar breytingar á málinu á milli 2. og 3. umr. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu hins vegar um að ekki ætti að gera neinar sérstakar efnislegar breytingar, mögulega kannski einhverjar pínulitlar orðalagsbreytingar, og svo ætti að koma með eitthvert framhaldsnefndarálit til að gera grein fyrir gestakomum. Síðan gerist það fáeinum dögum áður en málið er tekið út, að það er verið að benda á það sem tveir ráðherrar VG, forsætisráðherra og félagsmálaráðherra, hafa verið að tala um, að það standi fyrir dyrum að gera breytingar að frumkvæði VG í nefndinni.

Við höfum verið að tala um þetta og rukka meiri hlutann um þetta við litlar undirtektir í nefndinni fram að því. Bregður svo allt í einu við að kvöldi dags, um níu- eða tíuleytið held ég, að allt í einu kemur nefndarálit, sem er svo sem altítt, en í því eru breytingartillögur. Gott og vel. Þá lá það fyrir hverjar þær væru og þegar maður las þær yfir til að byrja með þá hugsaði maður með sér að fljótt á litið gæti eitthvað þarna hreinlega virst til bóta fyrir málið.

Svo var farið fram á það í nefndinni daginn eftir að hægt væri að kalla til gesti til að hjálpa þingmönnum við að leggja mat á það sem kemur fram í breytingartillögunum, sem er hin eðlilega þinglega meðferð, eðlilega meðferð máls í þingnefnd, að þeir sem best þekkja til, sérfræðingar — við getum nefnt Rauða krossinn, við getum nefnt mannréttindasamtök, við getum nefnt Barnaheill, Þroskahjálp, alls konar aðila sem þarna gætu lagt í púkkið — legðu mat á það hvaða áhrif þær tilteknu breytingar myndu hafa. Því var neitað. Þarna fannst mér meiri hlutinn og formaður nefndarinnar, hv. þm Bryndís Haraldsdóttir, gera sig seka um — ég ætla ekki að nota orðið valdníðslu en mér fannst það stappa nærri því. Ég ætla þá að rökstyðja af hverju: Þó að búið sé að ræða þetta mál mikið hér í þingsal og þó að búið sé að ræða þetta mikið í nefnd þá er það engu að síður þannig að þegar við erum með undir mál sem snýr að svona miklum grundvallarréttindum fólks, þegar við erum með undir mál sem vekur svona miklar tilfinningar í samfélaginu og þegar við erum með mál þar sem breytingartillögur koma svona rosalega seint fram, þá er það mjög óeðlilegt að ekki sé hægt að bera það undir sérfræðinga hverjar afleiðingarnar af þessum tilteknu breytingum geta orðið. Þetta á ekki að gera svona þegar við erum að setja lög hér á Alþingi, allra síst í máli eins og því sem hér er undir.

Þar af leiðandi er það þannig að þingmenn eru sendir út á akurinn til að afla sér upplýsinga um þetta án þess að geta notað valdsvið og kraft nefndarinnar til að gera það. Það er bara ofureinfaldlega ekki nógu gott. Ég verð eiginlega að fá að segja að eftir því sem tíminn hefur liðið, og maður fór að rýna aðeins betur í þetta og leita ráða um það hverjar gætu verið afleiðingar af þessum breytingum, þá áttaði maður sig kannski svolítið á því til hvers þeir refir voru skornir. Það virðist vera, a.m.k. í flestum tilfellum þegar kemur að þessum breytingartillögum, að þetta sé frekar mikil sýndarmennska. Það er verið að hnykkja á einhverju sem var þar fyrir. Það er t.d. verið að taka af allan vafa um eitthvað sem stóð ekki til og þar fram eftir götunum. Það er verið að tala um það sem rakið hefur verið hér ágætlega hjá hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þetta með bráðaheilbrigðisþjónustuna, rétt eins og við vitum það ekki öll að ef hælisleitandi lægi á götunni, stórslasaður eða fárveikur yrði það alltaf þannig, út frá þeim siðferðisreglum sem heilbrigðisstarfsfólk fer eftir, að því fólki yrði auðvitað alltaf komið til hjálpar. Það er verið að setja inn svona alls konar atriði, einfaldlega til þess að VG geti dyggðaskreytt sig pínulítið vegna þess að eldurinn hefur réttilega brunnið á flokknum vegna þessa máls. Það er nú bara einfaldlega nokkuð víðtæk samstaða um það, held ég, að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi verið stofnuð til einhvers annars, a.m.k. þegar kemur að mannréttindamálum, en þess sem kemur fram í þessum útlendingalögum. Sú gagnrýni hefur heyrst mikið inni í flokknum og það er auðvitað ástæðan fyrir því bæði að þessar breytingartillögur, innihaldsrýrar eins og þær eru, koma fram og svo líka að ekki er gefið færi á því að rýna þær af neinu viti í nefndinni. Mér finnst þetta mjög gagnrýnivert. Þess heldur, svo að maður bæti því við, var ekki búið að safna saman öllum þeim gögnum sem nefndin hafði beðið um áður en málið var tekið út í flýti. Síðan er það auðvitað líka þannig að eftir stendur sú spurning hvort veigamestu atriði frumvarpsins standist stjórnarskrá, eins og bent hefur verið á að þurfi kannski að rýna betur og það hefur verið fellt af meiri hlutanum að gera það þannig að eitthvert gagn sé að.

Auðvitað verður maður að halda því til haga að meiri hlutinn kom því þannig fyrir í nefndinni að við gátum fengið að spyrja ráðuneytið út í þessar tilteknu breytingartillögur. En nú er það þannig að það er ekki ráðuneytið sem sér beint um þjónustu við þetta fólk. Það er ekki ráðuneytið sem er mesti sérfræðingurinn þegar kemur að því að halda utan um það fólk sem hér kemur og er í viðkvæmri stöðu.

Síðan langaði mig líka að gera aðeins að umtalsefni eitt af því sem er verið að leggja hér til og mér finnst vera svolítil sýndarmennska, svo að ég segi það nú bara alveg eins og er. Það er verið að leggja áherslu á einhverja aukna eftirfylgni og þá hafði því verið hreyft að það gæti mögulega verið í einhvers konar skýrsluformi ráðherra til þingsins alls. En það er síðan, þó að það komi fram sem breytingartillaga hér fyrir 3. umr., þynnt út í það að ráðherra geti komið fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og gert grein fyrir stöðu málaflokksins eins og það sé ekki heimild til að gera það nánast hvenær sem er í nefndinni. Þetta er í raun og veru ekki að bæta neinu sérstöku við heldur er ofureinfaldlega til þess að ákveðnum þingmönnum geti liðið betur þegar þeir fara í atkvæðaskýringar þegar málið verður tekið til atkvæðagreiðslu eins og við vitum auðvitað öll.

Mig langar líka í framhaldi af því sem hefur komið fram í andsvörum að nefna það sem ég hef reyndar tæpt á áður, þegar við erum að tala um þessi mál, að mér finnst að við verðum einhvern veginn að komast út úr þeirri hugsun að líta á fólk sem hingað kemur í neyð sem einhvern sérstakan bagga á samfélaginu, að þetta sé allt einhver kostnaður, að þetta sé allt svo mikil fyrirhöfn, að hér séu allir innviðir að springa og þar fram eftir götunum. Við vitum að fólk sem er að flýja neyð frá öðrum löndum er auðvitað líklegra en margir til að vilja koma undir sig fótunum með sjálfbærum hætti, fá atvinnu, komast í skóla og búa sér til nýtt líf á eðlilegum forsendum. Þetta er auðvitað ekki þannig að hingað sé fólk að koma í stórum stíl til þess að leggjast á kerfið og það eru engin gögn sem sýna okkur fram á að þetta sé eitthvert stórkostlegt vandamál þótt það sé auðvitað þannig með þetta kerfi eins og öll önnur kerfi að það eru vafalítið einhver dæmi til um einhvers konar misnotkun. En þau dæmi eru ekki það svæsin, eða það hefur a.m.k. ekki verið sýnt fram á það við meðferð þessa máls, að þau kalli á einhverja meiri háttar yfirhalningu á málaflokknum í heild sinni.

Þess utan er það svo mikil skekkja að stilla málum upp þannig að þessi fámenni hópur, sem þetta frumvarp hefur áhrif á, sé einhver sérstök ógn og kalli á mikið viðbragð á nákvæmlega sama tíma og við erum að bjóða fólk velkomið hingað frá Úkraínu, á sama tíma og við erum að bjóða fólk velkomið hingað utan EES-svæðisins, sérfræðinga og aðra sem ríkisstjórnin hefur verið að boða á blaðamannafundum, og lengi staðið til, að auðvelda fólki að koma hingað til vinnu utan EES-svæðisins, að ekki sé talað um allan þann fjölda sem hingað getur komið og unnið og orðið partur af samfélaginu, bara í gegnum EES-samninginn. Þetta er alveg ótrúlegur fjöldi fólks. Það eru tugþúsundir útlendinga á hverjum tíma á landinu og að búa alltaf til þau hugrenningatengsl að tiltölulega afmarkaður hópur hælisleitenda, þeirra sem sækja um vernd og koma hingað úr hættulegum aðstæðum til að leita að betra lífi, sé einhver sérstök ógn, sé einhver sérstakur baggi, að það þurfi að vera til eitthvert rosalegt kerfi sem eyðir alveg ótrúlegum kröftum og eyðir alveg ótrúlegum fjármunum í það að halda fólki úti og helst frá vinnu og helst að minnka möguleika þess á því að geta séð fyrir sér þótt það vildi á meðan mál þess er til meðferðar hér. Það er ótrúlega mikil hugsanaskekkja í þessu, verð ég að fá að segja, og mér finnst að við þurfum einhvern tímann hér á Alþingi Íslendinga að geta tekið umræðu um þetta stærra samhengi málanna en ekki að vera alltaf einhvern veginn föst í því að mála hlutina þannig litum að hingað sé að koma fólk sem er bókstaflega að setja samfélagið á hliðina, nokkur hundruð einstaklingar eða kannski 1.000 einstaklingar þegar hingað koma útlendingar á hverju ári í tugþúsundatali. Þeir eru auðvitað hér á aðeins öðrum forsendum en grundvallarhugsunin er samt sú sama. Við verðum að geta litið þetta þeim augum líka.

Mig langar líka aðeins að nefna eitt af því sem hefur komið fram í umræðunni hér í dag en auðvitað áður líka. Það er eiginlega versta ákvæðið í þessu frumvarpi sem er þetta með niðurfellingu þjónustu sem mikið hefur verið rætt um. Ég verð að fá að nefna það samhengi sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom inn á hér í andsvari fyrr í dag af því að þetta er auðvitað svolítið merkilegt. Félagsmálaráðherra kemur hér allt í einu, skáskýtur sér inn í umræðuna eftir að hafa verið mjög þögull í málinu alveg fram að því, til þess eins að benda á að auðvitað sé ekki verið að fella niður neina þjónustu vegna þess að sveitarfélögin muni auðvitað grípa þetta fólk og ríkið muni síðan á endanum borga fyrir þá þjónustu. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér: Hvar er allt talið um skilvirkni? Hvernig getur þetta verið til marks um einhverja skilvirkni? Ég á svolítið erfitt með að skilja þetta. Þingmenn stjórnarliðsins hafa verið spurðir um þetta og þeir eiga svolítið erfitt með að útskýra þetta. Vafalítið eru menn í einhverri hugsun um það að með því að fella niður þessa þjónustu sé einhvern veginn hægt að ýta út fólki sem ætlar bara að vera hérna af því bara. En staðreyndin er sú að þetta er auðvitað að fara að bitna langharðast á fólki, eins og hefur komið fram fyrir allsherjar- og menntamálanefnd oftar en einu sinni oftar en tvisvar, og m.a. núna hjá Rauða krossinum á dögunum, sem hefur það skítt fyrir, getur ekki farið til síns heima, einfaldlega vegna þess að það vantar skilríki eða vegna þess að það eru ekki samningar við ríkið og öll þau atriði sem margoft hafa verið rakin hér í umræðunni. Það eina sem er að gerast er það að þessi hópur er mögulega að stækka og neyð þeirra sem eru í þessari aðstöðu þá mögulega að aukast. Það er svolítið djúpt á skilvirknipunktinum í þessu, finnst mér.

Auðvitað er það þannig að hér hafa stjórnarliðar einsett sér að koma þessu máli í gegn eftir nokkrar tilraunir áður og einhvern veginn hefur Sjálfstæðisflokknum tekist að fá VG með sér í þessa vegferð. Ég á svolítið erfitt með að skilja hvernig þeim tókst það. En svona er nú einu sinni pólitíkin þegar menn eru að semja um mál sín á milli. Gott og vel, það verður auðvitað bara að vera endingin á þessu. Einhvern tíma hlaut að koma að því að við myndum greiða atkvæði um þetta. Þá reynir á það hvernig meiri hlutinn er og hvernig menn ætla þá að rökstyðja það í atkvæðaskýringum, hvernig menn geta treyst sér til að styðja þetta mál. En ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna enda tími minn að verða búinn. En svona aðeins til að árétta það sem ég byrjaði á þá finnst mér mjög leiðinlegt og miður að við höfum ekki getað fengið, vegna þess að nægur var tíminn, að rýna þessar breytingar meiri hlutans betur með þeim sem best þekkja til og eru sérfræðingar á sínu sviði. Mér finnst að við eigum ekki að vinna þannig í svona umdeildum málum (Forseti hringir.) þar sem grundvallarmannréttindi fólks eru undir og allra síst eftir það ákall sem verið hefur í samfélaginu um að gera betur.