Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar m.a. að blanda mér í þessa umræðu um heilbrigðiskerfið. Við búum auðvitað við mjög öflugt heilbrigðiskerfi þar sem allir hafa rétt á þjónustu óháð efnahag og stöðu. En það er líka áhyggjuefni hve langir biðlistar eru eftir ýmsum aðgerðum, til að mynda liðskiptaaðgerðum. Langur biðtími hefur leitt til þess að töluverð aukning hefur verið í því að sjúklingar fari erlendis í aðgerðir en sömuleiðis hefur heilbrigðisráðherra heimilað opinberum stofnunum í auknum mæli að útvista aðgerðum til einkarekinna sjúkrastofnana hér á landi. Það er vissulega nokkur stefnubreyting sem m.a. hefur verið gagnrýnd af stjórnendum Landspítalans. Haft var eftir Runólfi Pálssyni forstjóra Landspítala vegna útboðs Sjúkratrygginga á liðskiptaaðgerðum, með leyfi forseta:

„Ég óttast að ef ekki er rétt á máli haldið færist verkefni í auknum mæli til einkareksturs. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að framboð á þjónustu utan Landspítala verði það mikið að það geti veikt stöðu spítalans …“

Í fjármálaáætluninni er fjallað í stuttu máli um væntanlegar breytingar á verklagi heilbrigðisráðuneytisins og embættis landlæknis vegna utanumhalds og birtingu biðlista. Sérstaklega er tilgreint að fyrsta skrefið verði að birta yfirlit um liðskiptaaðgerðir. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort þetta sé upptaktur að miðlægum biðlista fyrir liðskiptaaðgerðir og sömuleiðis spyr ég ráðherra hvort sú stefnubreyting sem um ræðir sé komin til að vera eða hvort um tímabundið átak sé að ræða til að mæta uppsafnaðri þörf í kerfinu, af því að ekki er að sjá neina skýra stefnumótun í þessari fjármálaáætlun sem hér er til umræðu.