Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er kannski það sem ég og fleiri veltum fyrir okkur þegar þessi biðlisti er kominn í jafnvægi, hvort þá verði lögð áhersla á að opinbera heilbrigðiskerfið sinni þessu hlutverki og hitt sé frekar til að mæta uppsafnaðri þörf þegar einkageirinn kemur inn og hjálpar til. Fyrr í vetur sáum við stjórnendur ríkisrekinna sjúkrahúsa lýsa yfir áhyggjum af því að sjúkrahúsin kunni að veikjast og að sérfræðingar fari í enn ríkara mæli til einkarekinna fyrirtækja. Það er alveg ljóst að sé verkefnum útvistað í auknum mæli til einkageirans kallar það á starfsfólk á endanum og eykur mönnunarvanda Landspítala og annarra opinberra stofnana, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra kom inn á, og leiðir til þess að þær geta síður sinnt aðgerðum og stytt biðlista.

Það er erfitt jafnvægi þarna á ferðinni. Þó að ég skilji vissulega að það sé eðlilegt að nýta einkageirann þegar þörf er brýn, þjáningar fólks eru annars vegar og miklir biðlistar, þá bíta þessar aðgerðir í báða enda og skapa stundum fleiri vandamál en þau leysa. Ég vil þess vegna að lokum spyrja ráðherrann hvað hann sjái fyrir sér í þessum efnum; hvernig á að manna sjúkrahúsin okkar, legudeildir og ónýttar skurðstofur ef heilbrigðiskerfið stendur fyrir allt of miklum missi fagfólks úr opinbera geiranum yfir í einkageirann og ef hlutfallið í rekstri verður þannig að meira og meira fjármagn skattgreiðenda renni með einum eða öðrum hætti til einkageirans?