Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[22:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hafa sem sagt engar rannsóknir farið fram og þykir mér það slæmt. Auðvitað telst þetta einkavæðing því að þetta er erfanlegt og þess vegna tel ég þetta vera einkavæðingu. Það er góður vilji í því að svæðaskipta og að innan ákveðins svæðis megi ekki vera eignarhluti nema upp á 2%. En því miður hefur það ekki haldið vatni hingað til í stóra kvótakerfinu, þetta þak, og við vitum hvernig það er og ég sé það ekki fyrir mér hvernig það heldur þarna. Þó að það væru þessi 2% færi fjöldi báta úr 400 niður í 50 og samþjöppun yrði auðvitað bara gífurleg.

Mig langar kannski aðeins að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hún skilgreinir nýliðun. Hver verður nýliðunin? Hver er skilgreiningin á nýliðun? Eru það þeir sem hafa keypt sér útbúnað til grásleppuveiða á síðustu þremur árum og eru að byrja og fá svo lítið úthlutað að þeir munu aldrei geta haft hag af því að veiða því að það stæði ekki undir sér? Eru það þeir eða einhverjir sem aldrei hafa farið á sjó? Þetta er auðvitað fallegt orð, nýliðun, en í þessari grein í dag hefur það akkúrat verið einn af möguleikunum til nýliðunar að menn hafa bæði getað stundað grásleppuveiðar plús strandveiðar og samlegðaráhrifin hafa verið sú nýliðun sem hefur verið í fiskveiðistjórnarkerfinu í dag. Með því að brjóta þetta svona upp þá spyr maður sig: Verða strandveiðarnar næst, með nýjum sjávarútvegsráðherra sem, þegar búið er að varða leiðina á þennan veg — að það sé þægilegra fyrir Fiskistofu að sjá þetta allt betur fyrir en verra fyrir byggðir landsins sem munu bera skarðan hlut frá borði?