Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[22:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er oft með svona stór og mikil mál að þau hafa alls kyns hliðaráhrif. Þó að það sé hægt að segja að þetta mál eitt og sér sé bara nákvæmlega eins og það lítur út þá er það oftar en ekki sem ein þúfa getur velt þungu hlassi og haft áhrif á annað. Þetta er bara púsl sem er orðið 5,3% í þessum litla hluta í félagslega kerfinu sem Vinstri græn hafa haft að stefnu sinni að auka á einhverju tímabili í 8,3%. Ég hefði gjarnan viljað sjá að því máli hefði verið fylgt eftir í raun, eða þetta mál og það mál hefðu þá bæði verið undir í þeirri skoðun sem er í gangi núna en ekki verið að plokka eitthvað eitt og eitt út, því að þetta er allt samspil þarna á milli. Þegar menn fara hugsanlega að selja frá sér kvóta í grásleppu vegna þess að magnið sem þeir fá við úthlutun er það lítið að það ber sig ekki að gera út þá mun sá hluti reyna að halda áfram með einhverjum hætti og fara inn í strandveiðikerfið sem mun þá bólgna enn frekar út og ekki geta staðið undir sér sem slíkt miðað við þær heimildir sem eru í dag.

Ég ætla að halda áfram að rökstyðja þetta mál enn frekar og hef sagt það og segi það hér að ekkert í stjórnarsáttmálanum kveður á um kvótasetningu í fiskveiðistjórnarkerfinu og þess vegna er ég ósátt við að það sé búið að kvótasetja sandkola og hryggleysingja nú þegar með framsali. En það er búið og gert. Ég hef ekki séð rökstuðning fyrir því að það þurfi. Það hefur oft verið rætt um að lagfæra þetta sóknardagakerfi og komið með góðar ábendingar í þeim efnum af ýmsum þeim sem hafa stundað hrognkelsaveiðar til fjölda ára og líka Landssambandi smábátaeigenda. Þessi kvótasetning mun að mínu mati, og þeirra sem þekkja reynsluna og vita að þetta gerist mjög hratt, breytast í mikla samþjöppun á stuttum tíma. Stærri fyrirtækin eru að kaupa upp minni útgerðir mjög hratt í dag en það getur enginn stýrt því og menn geta stofnað útgerðir á kennitölu á öllum svæðum og hafið útgerð. Ég man eftir því þegar maður var yngri og var að horfa upp á skipin fara, þá var sett inni í fermingarsáttmálann, eins og maður kallaði það, að sveitarfélögin ættu forkaupsrétt, sem auðvitað hélt ekki neinu því að sveitarfélögin höfðu ekkert efni á því að nýta sér hann og allt þjappaðist þetta saman og við vitum hvernig staðan er í dag.

Á undanförnum árum, utan eins, hafa veiðar á grásleppu ekki náð ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um heildarafla og úr þessu má einmitt lesa að ekki er þörf á að kvótasetja grásleppu þar sem ekki er um ofveiði að ræða og engin fiskifræðileg rök fyrir því, heldur þarf að hafa vakandi auga yfir núverandi kerfi og hlusta á þá sem eru í greininni sem eru bara ekki að bíða eftir að fá fjármuni og fénýtingu út úr þessu og eru komnir á þennan stað að ætla að hætta hvort sem er. Auðvitað þiggja þeir að fá fjármuni sem annars hefðu ekki orðið, að geta selt næsta manni kvóta í grásleppu. Sumir hafa haldið að sér höndum að selja og þess vegna kannski hefur ekki verið nýliðun vegna þess að menn hafa verið með þetta hangandi yfir sér að kannski yrði grásleppan kvótasett. En veruleikinn er sá að ef kvótasetning verður að lögum þá mun þessi kvóti ganga í erfðir og verður auðvitað góð söluvara fyrir útvalda og valdasamþjöppun. Og það er fjöldi aðila sem eru búnir að fjárfesta á undanförnum fáum árum í búnaði til hrognkelsaveiða og myndu fá lítinn kvóta núna ef þetta yrði kvótasett og þeir myndu bara fara mjög illa út úr þessu og þeir eru nýliðar og það er bara á mörgum stöðum sem sú staða er uppi og hefur maður heyrt frá mörgum aðilum sem eru í þeirri stöðu.

Það er auðvitað bara góður vilji að segja að 2% kvótaþak og svæðaskipting muni verða til þess að þetta muni allt vera innan ákveðinna marka og ekki fara út af svæðinu og komandi kynslóðir geti nýtt sér að stunda grásleppuveiðar eins og forfeður þeirra. En útgerðir hingað til hafa ekki verið nein börn að leika sér við varðandi það að finna ótal leiðir til að fara fram hjá alls konar girðingum og þökum, og kennitöluflakk á raunverulega eigendur og allt þetta og krosseignatengsl, við þekkjum þetta allt sem erum ekki alveg fædd í gær. Þetta er bara víti til að varast. Þar sem ég kem úr því þorpi þar sem Verbúðin var tekin og meira að segja að hluta til í mínu húsi og annað, þá vil ég bara minna á það flotta verk sem var spegilmynd af þeim tíma. Það væri ekki gaman að lenda í þriðju útgáfunni af Verbúðinni með þetta. Þó að þetta sé í smærri stíl skiptir þetta vissulega máli.

Við munum að núverandi strandveiðikerfi var sett á fót af Vinstri grænum í kjölfar álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um atvinnufrelsi og þá var talað um að það atvinnufrelsi næði líka til þess að stunda hrognkelsaveiðar. Menn hafa talið sér trú um það og ég hef skilið marga eldri grásleppukarla þannig að þingmenn hér áður fyrr hafi riðið um héruð og fullyrt það. Hrognkelsaveiðar eru því vissulega hluti af félagslega kerfinu svokallaða í fiskveiðistjórnarkerfinu sem við Vinstri græn viljum efla og stækka. Ég heyri að hæstv. ráðherra er á þeirri línu en ég held að hún þurfi að breyta um kúrs til að komast á þann stað að við getum nýtt það sem er fyrir og er til staðar en ekki að þjappa því áfram á sama stað og stóra kerfið er, með tilheyrandi kvótabraski sem myndi byrja á fullu. Ég er vissulega hrædd við það þó að þetta sé ekki frumvarp um strandveiðar eða svæðaskiptingu eða annað sem er núna til umfjöllunar á Alþingi, það er bara verið að gefa samt ákveðið fordæmi sem er hættulegt. Við vitum aldrei hvaða ríkisstjórn kemst til valda við næstu kosningar. Við höfum ekki hugmynd um það. Þess vegna megum við ekki spila boltann þannig að hann verði til þess að auðvelda hugsanlega kvótasinnuðum nýjum sjávarútvegsráðherra eða matvælaráðherra leikinn að halda áfram að kvótasetja af því að það er auðvitað svo miklu þægilegra fyrir alla strandveiðisjómenn að vita nákvæmlega hvað þeir mættu veiða og þægindi fyrir Fiskistofu og alla að allir vissu nákvæmlega hvað þeir ættu og líka hvað þeir ættu ef þeir seldu sig út úr greininni og gætu lagt þetta á bók hjá sér. En það væru kannski fáir sem hefðu efni á að kaupa af þeim nema þeir efnameiri.

Ég vona bara að menn endurskoði þetta nú í fullri alvöru. Ég las allar umsagnir í samráðsgáttinni um þessi mál og þar eru margir sem bara hrópa húrra yfir því, loksins, loksins, en það eru líka margar mjög vel rökstuddar umsagnir þarna um þveröfugt. Þá eru menn ekki að hugsa um sjálfa sig og að fá einhvern aur í kassann þegar þeir hætta í atvinnulífinu heldur eru þeir að hugsa um afkomendur sína, komandi kynslóðir og litlu þorpin og byggðirnar, og líka sveitirnar, því það er auðvitað víða til sveita sem bændur hafa stundað hrognkelsaveiðar til að drýgja tekjur í búskapnum. Einhvern tímann var sagt úr þessum ræðustól að hvert bóndabýli sem lægi að sjó ætti að hafa eitt strandveiðileyfi, eða getað stundað hrognkelsaveiðar eins og þau hafa gert um aldir.

Það var mjög ánægjulegt að heyra þessa könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Auðlindina, bara hve gífurlegur stuðningur er við þann hluta félagslega kerfisins sem er þó til staðar í dag og að það séu yfir 72% sem vilja hækka hlutfall til strandveiða. En það skiptir líka máli að þetta samspil veiða á grásleppu og strandveiða og þá að byggðakvótinn nýtist í raun á þessum svæðum sem hann var ætlaður en renni ekki af fullum krafti til þessara stóru sem eiga nóga fjármuni, aðgengi að lánastofnunum og er ekkert mál fyrir að fjármagna, að kaupa af næsta manni og gera út á fleiri kennitölur og fara alls konar krókaleiðir til að fóðra það með öllum hætti. Og þó að maður vilji alltaf trúa því besta upp á manneskjuna þá vitum við að það eru auðvitað bara sérfræðingar á hverju strái sem hafa farið fram hjá eða fundið leiðir til þess að gera eitthvað löglegt sem er kannski siðlaust.

Ég vil bara brýna hæstv. ráðherra, sem ég veit að vill vel í þessum málum, til að skoða þetta því að það er engin skömm að því að endurskoða hlutina og það þarf oft að gera það í stórum og miklum málum því að þetta er stórt og mikið mál. Þó að stór hluti þjóðarinnar sé kannski ekki algerlega með það á hreinu hvað þarna er undir og hvað er verið að gera þá er þetta prinsippmál sem við Vinstri græn höfum vonandi áfram og viljum að sé sameiginleg auðlind þjóðarinnar en gangi ekki í erfðir með þeim hætti sem væri ef þetta yrði samþykkt óbreytt.