Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[23:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get auðvitað ekki greint það. Þó að ég sé orðin 65 ára þá hef ég ekki spákonuna alveg fullkomna í mér eða get lesið í kúlu hvað hefur nákvæmlega gerst. En ég held að kannski sé þetta þannig að menn eru svolítið að taka við ákveðnu búi og eitthvað liggur líka stundum fyrir í ráðuneytum eins og við þekkjum, hvort sem er í þessu ráðuneyti eða öðrum, og menn vilja lagfæra það eitthvað og telja að það sé búið að gera bragarbót á því. En ég tel að um svona mál eigi, hjá flokki eins og okkar, Vinstri grænum, að taka góða almenna umræðu. Það var góð loftslagsráðstefna sem hafði gott orð á sér hérna um daginn og mér hefði fundist að það hefði þurft að hafa bara ráðstefnu og panel og ræða þessi mál, hvað væri best, og fá að borðinu sérfræðinga og lærða sem leikna í þeim málum, sjómenn og aðra, og rökræða þetta. Hvað stendur upp úr, hver er þörfin? Getum við lagfært núverandi kerfi og gert það betra án þess að það gangi bara út á fénýtingu? Ég hefði gjarnan viljað sjá slíkar rökræður og meiri rannsóknir á umhverfismálum og því hvernig hrognkelsin haga sér, við eigum sérfræðinga í því eins og hjá Biopol á Skagaströnd og fleiri innan Hafró, og fara dýpra í þetta áður en við stökkvum á eitthvað svona sem getur valdið skaða til framtíðar. Það er svo erfitt að snúa aftur. Við vitum að það er ekki fræðilegur möguleiki, liggur við, að snúa ofan af kvótakerfinu í dag með framsali þó að það hafi verið reynt hérna 2009–2013.