Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[23:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki nú hæstv. ráðherra, Svandísi Svavarsdóttir, bara að góðu og ég veit að hún vill vel þó að alla geti greint á um leiðir. Ég veit að hún er skynsöm og vill skoða hlutina frá öllum hliðum. Ég efast ekkert um að hún sé ekki búin að loka öllum dyrum, ég trúi ekki öðru, og hún sé tilbúin að skoða þessi mál áfram. Á síðasta kjörtímabili kippti síðasti ráðherra í þessum ráðherrastól til sín málinu sem var eiginlega hálfklárað í atvinnuveganefnd og breytti því og bætti og lagði það svo aftur fram og það var afgreitt, svo að það er allt til í þessum málum og enginn þarf að ganga með veggjum þó að menn endurskoði ýmis mál. Til þess er nú Alþingi, að velta vöngum yfir hlutum og fá umsagnir og hlusta á það sem þar er og vega það og meta. En það eru ýmsar leiðir til. Mér skilst að t.d. í Grænlandi sé stýring veiða eitthvað á þann veg að hvert svæði hefur X fjölda báta á hrognkelsaveiðum og þar er mismunandi veiði eftir svæðum. Í Noregi er mikill nýliðastuðningur og hvati. Ég er hrædd um að nýliðastuðningurinn sé of lítill sem hérna er lagður til miðað við það að síðan þurfa menn að kaupa af öðrum til þess að útgerðin beri sig sem þeir þurftu ekki áður og vera kannski á einhverjum nýliðastuðningi í mörg ár og það bara stendur ekki undir sér í veruleikanum og þess vegna gefast þeir upp. En við skulum vona það besta í þessum málum og ég trúi ekki öðru en að þetta verði skoðað jafnt í atvinnuveganefnd sem og hjá hæstv. ráðherra.