Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

Störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Nú þegar 1. maí er fram undan, alþjóðabaráttudagur verkafólks og launafólks í landinu, er gott að horfa til þeirrar yfirskriftar sem er yfir deginum: Jöfnuður, réttlæti og velferð. Erum við komin á þann stað að jöfnuður ríki í landinu? Ég segi nei. Það skortir enn mikið þó að margt hafi verið gert og margt áunnist í baráttu launafólks með aðkomu stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar. Við getum nefnt ójöfnuð í búsetuskilyrðum, ójöfnuð í launum fyrir sömu störf eftir kyni, aldri og búsetu. Við getum nefnt ójöfnuð sem birtist í gífurlegum launamun innan fyrirtækja þar sem sumir stjórnendur taka sér margföld laun starfsmanna. Er réttlætinu fullnægt í þjóðfélaginu? Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar. Það verður trúlega aldrei ef við stöndum ekki alltaf á verðinum og tökumst á við óréttlæti hverju sinni sem sprettur alltaf upp og þarf stöðugt að reyna að uppræta. Það er ekki réttlátt að efnaminna fólk geti ekki framfleytt sér á launum sínum og búi við gífurlega verðbólgu, hátt húsnæðisverð og vöruverð og geti ekki framfleytt fjölskyldu sinni.

Ég er nýbúin að fá svör frá félags- og vinnumarkaðsráðherra um framfærsluviðmið ríkis og sveitarfélaga fyrir árið 2023. Þar er einstaklingur með um 309.000 kr. ef hann býr með öðrum, en 389.000 kr. ef hann býr einn. Við sjáum að þetta eru ekki háar fjárhæðir til að framfleyta sér á þegar skattar eru dregnir frá þessu og þetta er eitthvað sem þarf virkilega að taka á, bæði varðandi lágmarkslaunin og lágan lífeyri. Verkalýðshreyfingin hefur frá upphafi lyft grettistaki við að byggja upp það velferðarsamfélag sem við búum við í dag þó að þeirri vinnu ljúki aldrei í nýju og breyttu þjóðfélagsmynstri. Sterk launþegahreyfing veitir stjórnvöldum aðhald og kemur að félagslegum áherslum sem annars hefði jafnvel ekki orðið. Og það er gott að vita að stjórnvöld hafa átt gott samtal við verkalýðshreyfinguna undanfarið til þess að jafna kjör í landinu (Forseti hringir.) og lyfta upp lífskjörum almennings og launþega í þessu landi.