Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

Húsnæðismál.

[15:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil koma inn á arðsemi í byggingariðnaði. Það er ljóst að hærra fasteignaverð, hærri afborganir af lánum og hærri leiga haldast í hendur og áhrifin af hækkandi verði á íbúðarhúsnæði kemur beint niður á leigjendum, fólki sem oftar en ekki er í þeirri stöðu að komast ekki inn á fasteignamarkaðinn, eins og við þekkjum, fyrstu kaupendur og unga fólkið. Á síðustu 10 árum hefur fasteignaverð á Íslandi hækkað um 104% að raunvirði í samanburði við hækkun í Danmörku upp á 36% og í Noregi upp á 23% á sama tímabili. Hækkandi fasteignaverð kemur ekki aðeins til af mikilli eftirspurn. Byggingarkostnaður er lykilþáttur í þeirri jöfnu, eins og við vitum. Í nýlegu Hagkorni BHM bendir Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM, á, með leyfi forseta, „að meðalálagning á seldar íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu í lok árs 2022 hafi verið rúmlega 100% samanborið við rúmlega 50% á árinu 2018“.

Hann bendir á að með þessu hafi byggingarverktakar tvöfaldað hverja krónu miðað við söluverð íbúðar í lok ársins 2022. Þessi gríðarlegi hagnaður brýst að sjálfsögðu út í verðlagið, þrýstir upp söluverði og ýtir undir þensluna. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur arðsemi byggingaiðnaðarins verið umtalsvert meiri en í öðrum atvinnugreinum undanfarin ár og var árið 2021 ríflega 25% í byggingariðnaði þegar hagnaður á sama tíma var í heild í viðskiptakerfinu um 15%.

Mér þykir mikilvægt að halda þessum sjónarmiðum á lofti því þetta eru samverkandi áhrif og mikilvægt að umræðan um húsnæðismál taki til allra þátta sem hafa áhrif á húsnæðis- og leigumarkað í landinu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvað hann sjái fyrir sér í þessum efnum og hvernig megi stemma stigu við ofsagróða í byggingariðnaði sem skili sér út í verðlagið, bæði fyrir kaupendur og leigjendur.