Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

Húsnæðismál.

[16:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er öllum ljóst að húsnæðismarkaðurinn hefur verið áskorun á undanförnum árum og stjórnvöld hafa vissulega sett þau mál á oddinn. Það er rétt að umtalsverðar umbætur hafi verið gerðar á húsnæðismarkaðnum með aukinni áherslu á félagslegar lausnir. Ríkið hefur úthlutað um 20 milljörðum til byggingar eða kaupa á yfir 3.000 almennum íbúðum víðs vegar um landið, um 2.500 á höfuðborgarsvæðinu og um 580 á landsbyggðinni frá árinu 2016. Stór hluti þessara íbúða hefur verið byggður í samstarfi við Bjarg, íbúðafélag ASÍ og BSRB, samtök námsmanna og önnur samtök. Einnig hefur leigufélagið Bríet, sem er í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, óhagnaðardrifið leigufélag, byggt upp fjölda íbúða í 38 sveitarfélögum, óhagnaðardrifnar leiguíbúðir. Það eru ánægjuleg tíðindi að í minni heimabyggð, Suðureyri, er nú verið að byggja í fyrsta sinn, í samstarfi við einkaaðila og Bríet, húsnæði. Það hefur ekki verið byggt húsnæði þar í um 40 ár. Það er jákvætt að það sé litið til landsbyggðarinnar líka. Sömuleiðis er gert ráð fyrir 19 milljarða stofnframlagi til uppbyggingar almennra íbúða í fjármálaáætlun, þeirrar sem hér hefur verið til umræðu. Þrátt fyrir það er ljóst að fleira en það þarf til til að bregðast við leigumarkaðnum í þessu umhverfi.

Ég vil því spyrja hæstv. innviðaráðherra, varðandi vinnuna við umbætur fyrir leigjendur og starfshópinn sem hefur verið að endurskoða húsaleigulögin með það að markmiði að tryggja réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda, hvort regluverkið á leigumarkaðnum sé tekið til endurskoðunar með það í huga að jafna stöðu samningsaðila og gera leiguhúsnæði að raunverulegum öruggum valkosti til búsetu. Og í ljósi óhóflegra hækkana á húsaleigu undanfarin ár, kemur þá til álita af hálfu ráðherra að koma á leigubremsu eins og mikið hefur verið talað um og er þekkt á Norðurlöndunum? (Forseti hringir.) Er ráðherra kunnugt um hvort slíkra úrræða sé að vænta frá hópnum sem er að störfum?