Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[15:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins frekar út í stærðarmörkin. Hann talar um að brúttótonnin verði ekki nein hindrun, að það þurfi ekki að hafa eitthvert viðmið þar. En telur hann að það sé hægt að hafa áfram 15 metrana sem inngang inn í það að komast í krókaaflamarkskerfið eins og það er í dag, en hitt sé alveg opið? Hvernig sér hann það fyrir sér, að hafa 15 metra lengd og síðan bara stækkun og stækkun ef það er algerlega opið, það verði ekki einu sinni 45 brúttótonn eins og lagt er til í frumvarpinu heldur eins og í breytingartillögunni hjá atvinnuveganefnd, bara algjörlega opið — hvernig verða þessir bátar í laginu? Eiga þeir bara að breikka og breikka? Verður ekki þrýstingur á það í framhaldinu að það gangi ekki upp að bátarnir stækki bara á breiddina af því að þeir mega ekki lengjast? Þá verður bara næsta skref í málinu að segja: Að sjálfsögðu verða bátarnir að lengjast, þú getur ekki breikkað bátinn endalaust eins og verið hefur undanfarið frá 2013. Menn hafa verið að setja alls konar óskapnað á bátana til þess að geta stækkað þá og það hefur verið á breiddina.

Síðan segir nefndin að hún óski eftir því að hæstv. ráðherra skoði aukið frelsi á veiðarfæranotkun á krókaaflamarksbátum. Hvað á nefndin við? Hvaða veiðarfæri nákvæmlega er verið að tala um sem menn vilja sjá í þeim efnum önnur en þau sem eru leyfileg í dag, það væri ágætt að fá það listað upp, og í hvaða tilgangi er það nefnt hér?