Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

537. mál
[15:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert sem hindrar það að fara í orkuskipti á þessum skipum. Þau þurfa bara ekki að vera í krókaaflamarkskerfinu, þau eiga bara að vera þar sem þau ættu heima, í aflamarkskerfinu sem lýtur ekki þeim reglum sem settar voru um krókaaflamarksbáta, að þeir væru af ákveðinni stærð og lengd. Það er ekkert sem bannar orkuskipti í bátum, þeir eiga bara að vera á réttum stað í kerfinu. Hvað mælir gegn því? Ég myndi gjarnan vilja fá að vita það hjá hv. þingmanni. Og líka þetta varðandi veiðarfærin, hvað er atvinnuveganefnd að óska eftir við ráðherra að heimila notkun annarra veiðarfæra en eru leyfð í dag í krókaaflamarkskerfinu? Eftir hverju er verið að kalla nákvæmlega? Varðandi t.d. netaveiðar þá hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið verið að skoða það og margir erlendis að banna jafnvel veiðar eða hætta að kaupa fisk af þeim sem eru á netaveiðum og í þeim efnum hefur grásleppan líka verið til umræðu. Eftir hverju nákvæmlega er verið að kalla? Á að setja krókaaflamarksbáta á togveiðar, netaveiðar, dragnót? Hverju er verið að kalla eftir?

Og varðandi samfélagslega þáttinn, hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af honum, vitandi um þá miklu samþjöppun, sem liggur fyrir talnalega frá 2013, sem hefur orðið í krókaaflamarkskerfinu, vitandi hvernig stórútgerðin hefur verið að kaupa sig inn í það kerfi? Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því undir hvað er verið að ýta með þessu máli og að það verði þrýstingur á að 15 metrar dugi ekki ef það á að halda áfram að stækka þetta enn frekar í brúttótonnum?