Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[15:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða þetta mál sem nú er undir, sem tengist auðvitað máli sem var fyrr á dagskrá varðandi orkuskiptin. Hér í máli 538 er ræddur aflvísir og þessi mælieining vísar til þess að það er verið að mæla togkraft vélar og í þessu tilfelli er verið að taka út aflvísi, fjarlægja úr lögunum, það sé sem sagt ekki horft til hans hjá þeim bátum sem eru að veiðum innan við 12 mílur. Þá er það ekki mælieiningin sem heftir veiðar, að menn séu með þennan aflvísi sem vísar til hversu togkraftur er mikill heldur er miðað við annað, lengd báta svo sem.

Ég hef og fleiri lýst yfir miklum áhyggjum af þessari þróun, að í ljósi fagurra fyrirheita um orkuskipti sé verið að leiða fram sparnað í notkun jarðefnaeldsneytis á kostnað lífríkisins, sem má auðvitað aldrei vera. Það má aldrei vera til þess að á móti séum við að gera hluti sem skaða lífríkið. Í þessu tilfelli er verið að skaða lífríkið með auknum þunga á botnveiðarfærum. Það er ekki spurning að þessi skip sem nú þurfa ekki að gangast undir það að vera með ákveðið vélarafl hafa núna möguleika, þegar vélaraflið er orðið meira, á að nota miklu öflugri botnveiðarfæri á við þessa stóru togara sem eru úti á ballarhafi. Það veldur auðvitað miklu raski á lífríkinu í sjónum. Hér var nefnt áðan af framsögumanni nefndarinnar að það ættu að fara fram rannsóknir á lífríki hafsbotnsins og í vetur var í samráðsgáttinni reglugerð frá matvælaráðuneytinu eða matvælaráðherra varðandi þá hluti að rannsaka áhrif veiðarfæra, botndreginna veiðarfæra, á lífríki sjávar utan 12 mílna. Út af hverju í ósköpunum má ekki gera þær rannsóknir fyrst á hafinu innan 12 mílna áður en það er farið að leyfa möguleika á enn öflugri botndrægum veiðarfærum á þeim slóðum? Mér vitanlega, og leiðrétti mig þá enginn, hafa ekki farið fram rannsóknir að neinu gagni á lífríki sjávar og á sjávarbotninum innan 12 mílna eða áhrifum ólíkra veiðarfæra á grunnslóð innan 12 mílna. Er ekki rétt að byrja á réttum enda hjá þeim og okkur öllum sem viljum umhverfinu vel, hvort sem það er til sjós eða lands, og hefja þessar rannsóknir og treysta vísindamönnum varðandi hvað kemur út úr því? Hvaða svæði eiga að vera friðuð og lokuð fyrir ákveðnum tegundum veiðarfæra og á hvaða svæðum er óhætt að nota mismunandi veiðarfæri? Á alþjóðavísu hefur auðvitað verið mjög gagnrýnt að veitt sé með þungum og öflugum veiðarfærum eins og botndregnum veiðarfærum.

Mig langar að vísa til greinar sem Magnús Jónsson, fyrrverandi veðurfræðingur, skrifaði og lokaorðin þar eru, með leyfi forseta:

„Ljóst er að veiðar með botndregnum veiðarfærum eiga í vaxandi mæli undir högg að sækja víða í heiminum. Það er því umhugsunarefni fyrir okkur á Íslandi að þáttur togveiða hér við land hefur farið sívaxandi á síðustu áratugum. Ljóst er að hvorki fræðasamfélagið, umhverfissamtök né íslensk stjórnvöld hafa gefið þessu þann gaum sem vert væri. Og enn merkilegra er að stöðugt er verið að heimila auknar veiðar með stórvirkri dragnót í landhelgi Íslands og það upp í fjörur og inn í fjarðarbotna …“

Þetta eru varnaðarorð sem koma frá vísindamanni og sami vísindamaður skrifar hér umsögn um málið í samráðsgátt fyrir hönd Drangeyjar, smábátafélags Skagafjarðar, og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Undirritaður telur þessa tillögugerð fráleita og í engu samræmi þá almennu stefnu á heimsvísu að draga úr togveiðum á fiski. Veiðar með botndregnum veiðarfærum valda stórfelldri losun á koltvísýringi umfram það sem losnar við brennslu á eldsneyti á aflvélar skips …“ — og bætir við að þetta komi fram í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðinu og ég vitnaði til.

Þetta er mikið áhyggjuefni og maður á erfitt með að skilja það að flokkur eins og Vinstri græn fari svona öfugt að, vilja með annarri hendinni auka orkuskipti en að með hinni hendinni, með afleiðingum af því, sé verið að kalla á enn þyngri og öflugri veiðarfæri innan 12 mílna á órannsökuðum svæðum sem veldur mikilli kolefnislosun. Það sé verið að skarka á öflugum togskipum langt innan við 12 mílur með öflugri veiðarfærum en leyft er í dag. Hér hefur verið talað úr ræðustól um að það sé ekki verið að breyta neinu varðandi veiðarfæri. Það eru togveiðar innan 12 mílna í dag, ákveðnar veiðar ákveðinna skipa sem hafa verið eyrnamerkt ákveðnu vélarafli, þessum aflvísi, en nú er verið að breyta því og það bannar ekkert sömu aðilum að nýta sér það afl til enn öflugri botnvörpuveiða og nýta þar veiðarfæri, hvort sem það eru botnvörpur eða hvaða þungu veiðarfæri sem ættu í hlut, sem eru sambærileg og á stórum togurum á ballarmiðum eins og ég hef nefnt hér áður.

Aðeins um nefndarálitið sem fylgir þessu máli. Þar er sagt m.a.:

„Eftir sem áður þurfa togskip yfir 42 metra, sem stunda togveiðar, að veiða fyrir utan 12 sjómílur frá viðmiðunarlínu, þá mega togskip undir 42 metrum en lengri en 29 metrar stunda veiðar á vissum svæðum …“

Þetta vekur athygli, að þessi skip, togskip með öflugum botnvörpum sem eru á bilinu 29–42 metrar að lengd, megi stunda veiðar á vissum svæðum upp að 4 sjómílum frá viðmiðunarlínu. Það er ekki verið að breyta því. Þá spyr maður sig: Skip sem eru styttri en 29 metrar, verður þeim heimilt að skarka með troll og stórar skrúfur bara upp við grunnslóð, sem stundum er kölluð matjurtagarður landsmanna? Það eru ýmsar spurningar sem vakna og það þarf að spyrja nánar Hafrannsóknastofnun og vísindamenn hvað er í raun undirliggjandi í þessu frumvarpi sem er svolítið falið eins og þetta, gefið í skyn en kannski ekki svarað. Eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á áðan þá var ekki hægt að veita svör við öllum spurningum minni hlutans eða hans, hv. þingmanns, í umfjöllun nefndarinnar. Ég las þessar umsagnir og svör og þar kemur: Getum ekki svarað, höfum ekki svör. Það er auðvitað grafalvarlegt í svona stóru máli þegar ekki liggja fyrir neinar rannsóknir til að byggja það á hvar má veiða og hvort það eigi að loka bara algjörlega svæðum innan 12 mílna fyrir þungum botnvörpuveiðum og þeim veiðarfærum sem eru að skarka á hafsbotninum og eyðileggja hann.

Ég vitna núna í umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda, með leyfi forseta:

„Landssamband smábátaeigenda (LS) mótmælir harðlega öllum hugmyndum um aukna sókn togskipa innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelginnar. […]

Telji Hafrannsóknastofnun að auka þurfi veiðar á grunnslóð er það tillaga LS að það verði gert með veiðum dagróðrabáta sem nota umhverfisvæn veiðarfæri. LS bendir á að næg sóknargeta er fyrir hendi hjá bátum sem nota kyrrstæð veiðarfæri. Notkun trolls og dragnótar við veiðar nálægt landi skilur eftir sig eyðimörk og fiskleysi á miðum smábáta sem ekki hafa stærðar sinnar vegna möguleika á að sækja á aðrar veiðislóðir.“

Þetta þekkja smábátasjómenn og hafa sagt við mig og auðvitað fjölda annarra í ræðu og riti að þegar þessi öflugu togskip, sem eru núna til staðar og hafa möguleika til að verða enn öflugri, hafa skarkað á einhverjum hefðbundnum miðum þar sem eru krókaveiðar þá sést bara ekki fiskur þar í langan tíma. Þetta eru uppeldisstöðvar fisks og mjög mikilvægar og dýrmætar fiskslóðir. Það þyrftu auðvitað að liggja fyrir ítarlegar rannsóknir hjá Hafrannsóknastofnun áður en farið er í þessa vegferð sem er mjög gagnrýniverð, en öll gerð í nafni umhverfisverndar og orkuskipta, sem eru öfugmæli að mínu mati, því miður.

Ég vil benda á rannsóknir sem hafa verið gerðar á kalkþörungabreiðum í Ísafjarðardjúpi sem virðast vera iðandi af lífi. Það kom fram í fréttum mjög nýlega að undanfarin ár hefur Michelle Lorraine Valliant stundað rannsóknir á lífríki sjávar á Vestfjörðum og sýnir ný rannsókn hennar að ungviði þorsktegunda leitar í kalkþörungabreiður í íslenskum fjörðum. Hún bendir einnig á að fiskveiðar með ákveðnum tegundum veiðarfæra, svo sem notkun dráttarnótar, geta skaðað kalkþörunga auk þess sem úrgangur frá eldiskvíum getur safnað upp lagi ofan á kalkþörungabreiðuna. Mér fyndist mjög áhugavert ef atvinnuveganefnd myndi kalla til þennan líffræðing sem þarna er nefnd til þess að fá hjá henni viðbrögð við þessu frumvarpi og umsögn og hvaða möguleikar eru á að vera með enn þá öflugri botnveiðarfæri þegar vélarkrafturinn eykst, skrúfan stækkar og vélaraflið má aukast.

Ég legg því til að þessu máli verði vísað aftur inn í atvinnuveganefnd. Þetta þarf miklu betri umræðu og rýni. Það liggur ekkert á þessu. Byrjum ekki á öfugum enda. Rannsökum fyrst lífríkið á hafsbotninum og áhrif ólíkra veiðarfæra á hafsbotninn, ekki bara fyrir utan 12 mílur eins og ráðuneytið er með í skoðun núna varðandi reglugerð í samráðsgátt, varðandi þau mál. Byrjum líka hérna næst landi þar sem umhverfisvænstu veiðarnar hafa verið stundaðar, bæði línu- og handfæraveiðar. Byrjum þar, hleypum ekki þessum öflugu togurum hingað upp að matjurtagarði landsmanna í hafi til þess að eyðileggja áður en rannsóknir fara fram. Það er bara öfugsnúið. Ég vona að skynsemin ráði ferðinni en sú hugsun sé ekki bara ráðandi að drífa þetta af og sjá svo til hvað verður. Stundum þurfa menn að taka U-beygju og það getur líka skilað jákvæðum árangri að hafa skynsemina að leiðarljósi. En ég myndi líka gjarnan vilja að fleiri aðilar kæmu að þessu til að skoða þetta og nefndin kallaði til sín fleiri. Ég nefndi Hafrannsóknastofnun, líffræðinginn sem ég nefndi líka og Byggðastofnun. Þetta hefur allt samlegðaráhrif, þetta mál og fyrra frumvarpið um stækkun krókaaflamarksbátana og samþjöppun sem fylgir því í krókaaflamarkskerfinu. Ætlum við Íslendingar ekki virkilega að reyna að standa vörð um þann litla hluta sem eftir er af einyrkjum í landinu sem hafa möguleika á að vera með minni útgerð, umhverfisvæna útgerð? En í ljósi orkuskipta verða hliðaráhrifin svo neikvæð gagnvart þessu útgerðarmynstri að það væri alltaf slag niður á við til þess að þjappa saman og framtíðarmúsíkin verður að íslenskir sjómenn verði bara leiguliðar hjá stórútgerðinni sem verður komin með þetta allt undir sig. Það á ekki að blanda þessu tvennu saman, að setja svona mál upp í nafni orkuskipta sem hefur svona neikvæð áhrif, bæði umhverfisleg og samfélagsleg og byggðarleg á okkar ágæta samfélag, ef við viljum standa vörð um það.