Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[15:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er auðvitað algerlega á sömu veiðislóðum og hv. þingmaður. Við höfum oft róið á sömu mið í þessum efnum.

Mér finnst miður að það sé ekki vilji innan þingsins til að skoða þetta til hlítar. Orkuskiptin flæða yfir allt, bara að tikka í boxið, það sé frábært. Það er eitthvað þarna undirliggjandi sem er ekki eins gott og það á ekki að fara undir radarinn. Þess vegna er ég að reyna að höfða til umhverfissinna, ekki bara í mínum flokki heldur í öllum flokkum, um það að þarna er neikvætt mál sem snýr að umhverfi hafsbotnsins og losun gróðurhúsaefna. Þarna er möguleiki á að vera með svo öflug veiðarfæri umfram það sem þó er í dag.

Mér finnst að þetta hafi verið barátta. Ég ólst upp í sjávarplássi. Barátta og orðræða sjómanna var allt í kringum mig. Ég hef verið formaður verkalýðs- og sjómannafélags og heyrt þá orðræðu í fjölda ára að færa þessi öflugu togskip enn lengra út fyrir 12 mílur, talað hefur verið um 20 mílur. Svo allt í einu er þetta bara komið alveg upp í kálgarðinn. Þótt þetta séu minni togarar hafa þeir sama afl og stórir togarar og hafa þar af leiðandi öflug veiðarfæri.

Þess vegna bið ég um að þetta verði skoðað og ekki rasað um ráð fram því að lífríkið er viðkvæmt. Það er ekki endilega afturkræft nema á löngum tíma. Hafrannsóknastofnun hefur staðið ráðþrota gagnvart því hvers vegna hrygningarstofn þorsks hafi ekki skilað meiri nýliðun. Við þurfum að rannsaka lífríkið til að sjá hvaða áhrif veiðarfæri hafa til röskunar.