Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[16:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Nú ræðum við þriðja málið sem tengist fiskveiðistjórnarkerfinu, 539. mál, rafvæðing smábáta. Það kom fram áðan í ræðu framsögumanns, hv. þingmanns, að við gætum horft til rafvæðingar einkabílsins í þessu samhengi. Ég bendi honum á að munurinn er sá að þar voru það ekki einstaklingarnir sem byrjuðu að rafvæða sína dísil- eða bensínbíla heldur voru það vélaframleiðendur sem þróuðu þetta og ég held að þannig muni það verða með smábátana, að þar verði það vélaframleiðendur sem byrja en ekki einhverjir einstaklingar heima í bílskúr eða á vélaverkstæðinu hjá sér. Þess vegna er þetta auðvitað þróun sem er í gangi á fullu, en það er ekki raunhæft að ætla einstaklingum sem slíkum að gera þetta hverjir í sínu horni.

Í þessu frumvarpi er nefndur sá möguleiki að fá 100 kg meiri afla á hverjum degi og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom ágætlega inn á að hvatinn er nú kannski ekki mjög mikill ef það borgar sig upp á 20 árum að fara út í þann mikla kostnað sem einstaklingur að breyta sínum báti í rafbát. Hann gæti verið á bilinu 40–50 milljónir, enginn veit það nákvæmlega. Þess vegna tel ég, eins og ég nefndi áðan, að þetta verði vélaframleiðendur og auðvitað er allur heimurinn undir í þessum efnum. Verið er að skoða og vinna að því á þar til bærum stöðum að þróa nothæfan búnað sem má treysta á varðandi rafvæðingu skipaflotans, hvort sem það er stórskipaflotinn eða smábátaflotinn, og ég nefndi í fyrri ræðu að menn telja að jafnvel innlent ammoníak gæti komið til með að vera nýtt á stórskipaflotann í framtíðinni og væri jafnvel hentugra þar en á smærri skip. Þetta er auðvitað allt á fullri ferð en undirliggjandi í þessu frumvarpi er að reyna að skapa jákvæða hvata. Það er jákvætt en ég sé það ekki gerast í raunheimum að einstaklingar fari út í þetta sjálfir og hef ekki heyrt þá umræðu í þessum geira að menn telji það vera raunhæft, heldur frekar að það sé í höndum tilheyrandi sérfræðinga í skipasmíðum, vélbúnaðarþróun og skipatækni almennt að sinna þeim málum.

Varðandi það sem kom fram áðan um orkunotkun smábáta, þessara báta sem eru til umræðu, þá er skýrsla Matís frá 2014 enn góð og gild en þar stendur að sótspor við veiðar á 1 kg af þorski á smábátum sé að meðaltali þriðjungur þess sem mælist við togveiðar. Það leikur enginn vafi á því að stjórnvöld hafa þarna möguleika á að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis við veiðar með því að auka hlut smábáta í kerfinu, sem ég hef talað stíft fyrir, og tryggja auðvitað strandveiðar í sumar í 48 daga, því að þetta eru umhverfisvænustu veiðarnar og með minnsta sótsporið; litlu jarðefnaeldsneyti er brennt á leiðinni á miðin, stutt er á miðin og á veiðum eru bátarnir rafvæddir. Þeir nota rafmagnsrúllur og brenna ekki neinu jarðefnaeldsneyti meðan á veiði stendur heldur má kannski segja að þeir séu „hybrid“. Þannig er það í dag og mér finnst þá þess vegna mega verðlauna þessa aðila sem stunda umhverfisvænar veiðar og nota raforku að hluta við veiðarnar.

Það sem ég vildi gjarnan að yrði skoðað betur í þessu máli er að fá álit hjá Samgöngustofu og skoðunaraðilum sem taka út þessa báta varðandi haffærisskírteini. Frumherji hefur verið með þetta, ég held að það hafi eitthvað breyst en það hlýtur að vera hægt að finna út úr því hvaða aðilar þetta eru, eflaust er fleiri en einn skoðunaraðilar fyrir útgáfu haffærisskírteinis sem síðan kemur frá Samgöngustofu í framhaldinu ef allt er uppfyllt sem til fellur.

Að lokum vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún hafa verið góð og auðvitað er eðlilegt að skiptar skoðanir séu í svona málum sem eru ekki einföld heldur flókin, af því að þar spila saman umhverfisleg sjónarmið og önnur sem eru neikvæð fyrir umhverfið. Góður vilji liggur á bak við öll þau þrjú mál sem hér hafa verið undir varðandi orkuskiptin, aflvísana og rafvæðingu smábátanna. Ég vil óska eftir því við forseta að hann vísi þessu máli aftur inn milli 2. og 3. umr. og fái þessa aðila sem ég nefndi, skoðunaraðila vegna haffærisskírteinis og Samgöngustofu, og einnig óska ég eftir því að fá Samgöngustofu vegna hinna tveggja málanna: 538. mál, aflvísir, og 537. mál, orkuskipti og stækkun krókaaflamarksbáta.