154. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2023.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ísland er á fullri ferð. Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði til að mynda meiri hagvöxt á fyrri helmingi ársins, ekkert. Atvinnuleysi er hér á landi hverfandi og starfandi fólki hefur fjölgað verulega eða um ríflega 30.000 frá síðari hluta ársins 2020 — 30.000 ný störf. Mikill gangur er í helstu atvinnugreinum. Nýlega seldu frumkvöðlar fyrir vestan nýsköpunarfyrirtæki fyrir fast að 200 milljörðum kr. og við það tilefni sagði stofnandi þess að hvergi væri betra að vera nýsköpunarfyrirtæki en einmitt á Íslandi.

Ný tækifæri verða til á hverjum degi, ný störf. Sum störfin eru störf sem við hefðum ekki getað gert okkur í hugarlund fyrir örfáum árum síðan og hingað vill fólk flytja í stórum stíl, því að þrátt fyrir öll viðfangsefnin sem við erum hér að ræða og fást við frá degi til dags, þá er ansi hreint gott að búa hér. Það segi ég fullum fetum og ég veit að landsmenn eru mér sammála um það. Það er gott að búa á Íslandi. Við eigum fallegt land, friðsælt samfélag þar sem fólk hefur tækifæri til að sækja fram á eigin forsendum. Það ætti enda ávallt að vera okkar helsta markmið hér á þinginu að greiða fyrir því að fólk geti elt drauma sína, skapað hvetjandi aðstæður fyrir alla landsmenn til að sækja fram og láta til sín taka.

Mikill hagvöxtur, fjölgun starfa — þetta sýnir að samfélagið okkar er allt á fullri ferð. Og það er við þessar aðstæður sem við komum hingað saman aftur að hausti til að setja nýtt þing. Þótt við eigum það gjarnan til í þessum sal að einblína á það sem aflaga fer í samfélaginu, það sem má betur fara, þá megum við ekki gleyma þeim miklu framförum sem hafa orðið. Þó að ekki sé litið nema aftur til aldamótanna þá hafa orðið gríðarlega miklar og jákvæðar breytingar á samfélaginu, nær allar breytingar til hins betra. Sumar gerast svona eins og sjálfkrafa með nýjum kynslóðum í fyllingu tímans, tæknin hefur áhrif. Aðrar breytingar verða ekki nema fyrir tilstilli Alþingis eða jafnvel með stuðningi þingsins.

Horfum til þess hver staðan var hér eftir fall fjármálafyrirtækjanna árið 2009. Skuldir ríkissjóðs höfðu vaxið gríðarlega og skuldir heimilanna sömuleiðis. Margir töpuðu vinnunni. Fyrirtæki lentu í djúpri krísu. Við vorum í efnahagslægð. Það er einn og hálfur áratugur síðan. Það var við þær aðstæður sem stjórnmálaflokkarnir settust að sama borðinu, allir flokkarnir á þingi, og aðilar vinnumarkaðarins og horfðu fram á veginn og sögðu: Hvernig getum við náð okkur aftur á strik? Þetta voru engin smá viðfangsefni sem við vorum þá að fást við, föst í gjaldeyrishöftum, skuldavandi heimilanna yfirþyrmandi og eitt aðalkosningamálið nokkrum árum síðar, árið 2013. Það var einmitt á því ári, 2013, sem verkefnisstjórn þessa samráðsvettvangs sem skapaður var kynnti hagvaxtartillögur sínar. Við erum sem sagt að fást við ástand þarna þar sem skuldir ríkissjóðs höfðu hækkað gríðarlega, höftin enn við lýði, slitabú gömlu bankanna starfandi og við vorum með efnahagslegt vandamál í skuldum heimila og fyrirtækja. Það var horft til 2030 og settar á blað mjög metnaðarfullar tillögur um það hvernig við gætum farið út úr þessum vanda og teiknuð upp sýn þar sem skuldir ríkissjóðs voru að nýju orðnar hóflegar og við gætum lagt grunn að meiri stöðugleika í landinu.

Í stuttu máli þá höfum við náð öllum þeim markmiðum sem þarna voru sett á blað. Það eru enn þá áskoranir, eins og t.d. verðbólgan sýnir okkur í dag, en við erum að hækka á lista yfir þau ríki sem framleiða hvað mest á mann. Landsframleiðslan á mann á Íslandi hefur hækkað frá þessum tíma um fimm sæti. Við erum núna í 9. sæti, vorum þá í 14., og við erum enn að hækka. Þetta er akkúrat það sem við vildum sjá gerast. Þannig að það er svo margt sem hefur breyst á tiltölulega skömmum tíma þó að við höfum tilhneigingu hér til þess að varpa ljósi á það sem betur má fara.

Helstu verkefni okkar þennan þingveturinn og til næstu ára er að styðja við endurheimt stöðugleikans. Það mun verka eins og stökkpallur til frekari sóknar, því að þrátt fyrir þann árangur sem við höfum náð — við náðum að glíma hér við heimsfaraldur og erum með öfundsverða stöðu á marga mælikvarða — þá erum við sannarlega með áskoranir. Það fylgja því ýmsir fylgikvillar þegar allar vélar í samfélaginu eru á fullum snúningi. Okkur hefur tekist að verja kaupmáttinn. Það skiptir grundvallarmáli, sérstaklega fyrir tekjulægri einstaklinga. Verðbólgan, vaxtastigið — ekki séríslenskt verkefni, en þetta ástand er eitthvað sem heimilin finna verulega fyrir, sérstaklega þar sem greiðslubyrði af húsnæðislánum hefur vaxið. Þess vegna verðum við að grípa strax inn í. Það er algjört grundvallaratriði.

Í kjölfar kynningar á fjárlögum tóku við fastir liðir: Gagnrýni. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir okkur eyða allt of miklu. Hv. þm. Inga Sæland segir: Nei, þið eyðið allt of litlu. (Gripið fram í.) Þið eigið að auka útgjöldin hér og þar. (IngS: Það er rangt.) Aðrir þingmenn — hv. þm. Kristrún Frostadóttir vill hærri skatta, stærra ríki til að auka tilfærslur og millifærslur. Og kenningin er auðvitað sú að það erum við stjórnmálamennirnir sem vitum best hvar peningarnir eiga heima. Svo eru auðvitað aðrir þingmenn eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sem mér sýnist bara boða það að hann skilji nú mest lítið í þessu öllu saman. En þetta er fólkið sem telur að það sé ríkisstjórnin sem sé ósamstiga, að hugsa sér.

Virðulegi forseti. Samfélag okkar er á fleygiferð. Það eru verkefni sem við erum með tökin á. Verðbólgan er að lækka. Við þurfum að snúa bökum saman, halda áfram á réttri braut. Þannig náum við á þessu þjóðþingi þennan þingveturinn enn og aftur að vinna landsmönnum öllum til heilla.