154. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2023.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Það er óréttlátt, virðulegi forseti, að fólk sem glatar starfsgetunni, veikist eða lendir í slysi sé dæmt til ævilangrar fátæktar. Þannig á Ísland ekki að vera. Það er líka óréttlátt að barn fái ekki að æfa íþróttir eða læra á hljóðfæri vegna fjárhagsstöðu foreldra sinna. Það er óréttlátt að öldruð kona sem hefur unnið slítandi störf um langa ævi fái ekki pláss á hjúkrunarheimili þegar hún þarf sárlega á því að halda. Þannig á Ísland ekki að vera og þannig þarf Ísland ekki að vera því kerfin okkar eru mannanna verk og það er í okkar valdi að breyta þeim.

Við í Samfylkingunni höfum verið algerlega skýr með það hver við erum og fyrir hvað við stöndum, hvað er í forgangi hjá okkur og hvað ekki. Það er efnahagur og öryggi fólks sem er númer eitt, tvö og þrjú.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér áðan að hann væri að verja kaupmáttinn. En ég hef fréttir að færa ráðherra: Kaupmáttur ráðstöfunartekna fer rýrnandi um þessar mundir. Þetta er staðreynd og æ fleiri eiga erfitt með að ná endum saman. Við erum á fullri ferð, sagði hann, hreykti sér af því að við værum á fleygiferð. En þetta er vandinn, virðulegi forseti. Það er eins og ráðherrann sjái það ekki að ofþanið hagkerfi er vandinn sem veldur verðbólgu og vaxtahækkunum og bitnar á lífskjörum fólksins í landinu.

Við í Samfylkingunni gefum engan afslátt af kröfunni um samtryggingu og mannlega reisn. Við lítum ekki í hina áttina þegar börn með þroskafrávik eru látin bíða meira en ár eftir þjónustu í einu ríkasta samfélagi heims. Við sættum okkur ekki við bilað almannatryggingakerfi, að kjör öryrkja og aldraðra dragist aftur úr launaþróun ár eftir ár eins og gerst hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar. Afkomuöryggi, húsnæðisöryggi, öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Við unum því ekki að frítekjumarki lífeyristekna sé ríghaldið í 25.000 kr. og hver einasta króna umfram það komi til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar. Þannig viljum við ekki hafa almannatryggingakerfið okkar því við eigum að geta verið stolt af því, stolt af því að búa í velferðarþjóðfélagi þar sem borin er virðing fyrir fólki og framlagi þess.

Ef þú átt erfitt með að ná endum saman þá skaltu vita að Samfylkingin stendur með þér. Ef þú ert að sligast undan efnahagsóstjórninni í landinu, hækkandi verðbólgu og hækkandi vöxtum, þá skaltu vita að þingflokkur jafnaðarmanna vinnur fyrir þig. Þess vegna lögðum við til og fengum samþykkt hér í þingsal að vaxtabætur voru hækkaðar og víkkaðar út til 4.000 heimila sem ellegar hefðu engan stuðning fengið því það er heimilisbókhaldið sem okkar pólitík snýst um, hvernig fólk hefur það frá degi til dags. Afkomuöryggi, húsnæðisöryggi, öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Forseti. Við þurfum líka að eiga samtal um öryggi í hefðbundnari skilningi þess orðs. Og hér skulum við vera algerlega skýr. Samfylkingin gerir fortakslausa kröfu um lög og reglur. Við unum því ekki að löggæslan í landinu sé fjársvelt, að lögreglumönnum fari fækkandi miðað við höfðatölu. Við unum því ekki að menn sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi gangi lausir án refsingar vegna þess að það er ekki pláss í fangelsum. Þannig á Ísland ekki að vera.

Við gefum engan afslátt af mannréttindum. Við unum því aldrei að manneskja þurfi að óttast um öryggi sitt og tilverurétt vegna þess hver hún er. Þannig á Ísland ekki að vera. Þannig þarf Ísland ekki að vera.

Við getum gert svo miklu betur. Við getum staðið undir nafni sem sterkt velferðarþjóðfélag þar sem öryggi og virðing er í öndvegi. En þá þurfum við líka að hafa kjark til að taka stórar ákvarðanir. Við þurfum að hafa kjark til að afla tekna og styrkja grunninn, brjóta upp fákeppni og klíkuræði, taka stjórn á heilbrigðiskerfinu okkar svo allir, ekki bara sumir, búi við öryggi. Þannig á Íslandi að vera og þangað skulum við stefna, stolt og glaðbeitt, áfram gakk.