154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn útúrsnúningur hér heldur er ég bara að vekja athygli á þeirri staðreynd að við hækkum bætur almannatrygginga í upphafi árs til samræmis við vænta verðbólgu. Það hefur gerst sögulega að verðbólgan hefur reynst vera lægri heldur en við höfum ákveðið að hækka bætur almannatrygginga um áramót. Sömuleiðis hefur það gerst, eins og hv. þingmaður segir, að verðbólgan er hærri. Dæmi um það hafa verið á undanförnum árum og þá höfum við á miðju ári gripið til sérstakra viðbótarhækkana til að leiðrétta þann mun sem orðinn er á raunverðbólgunni og þeirri verðbólgu sem við höfðum gert ráð fyrir um áramót. Þannig höfum við tryggt að bætur almannatrygginga hafa haldið í við verðlag en lögin gera ekki ráð fyrir því að við gerum annað en að breyta þessari tölu einu sinni á ári. Við skulum bara taka það til sjálfstæðrar skoðunar hvernig það t.d. hefur komið út á þessu ári eða uppsafnað yfir síðustu tvö, þrjú ár. Það þykir mér sjálfsagt að gera vegna þess að það er okkar ásetningur að tryggja að bæturnar rýrni ekki að raungildi. Síðan er það allt önnur saga að sumir hér í þinginu vilja meina að við ættum að hafa einhverjar aðrar viðmiðunarreglur, eins og t.d. þá að láta bætur almannatrygginga hækka til jafns við hækkun lægstu launa í kjarasamningum, nú eða til samræmis við launavísitölu, og ýmsar slíkar hugmyndir hafa verið hér á lofti. En lögin eru eins og þau eru í dag og við teljum að við séum að fullu að framkvæma lögin í samræmi við löggjafarviljann og umræða um að það myndi koma betur út fyrir bótaþega að fylgja hinni reglunni, sem er eins konar eftiráuppgjör, stenst ekki skoðun að mínu áliti.