154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki annað hægt að finna bara til með hv. þingmanni sem botnar lítið í þessu og ég veit ekki … (Gripið fram í.) Hann segist lítið botna í hlutunum, segir það hér sjálfur. (Gripið fram í.) Vonandi kemur hv. þm. Logi Einarsson hér upp von bráðar. En þetta er nú bara þannig að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í fyrra skiptu verulega miklu máli og sömuleiðis aðgerðir ríkisstjórnarinnar í sumar þegar við boðuðum til að mynda að bætt yrði í fjárstuðning við byggingu nýrra íbúða. Það skiptir verulega miklu máli enda hefur tekist að stöðva hækkun á íbúðaverði á Íslandi og það hefur reyndar orðið raunlækkun á íbúðaverði undanfarið ár. Við erum sömuleiðis að boða það að við ætlum að flýta upptöku fjármálareglna sem sýnir vilja til aukins aðhalds. Við höfum verið að ræða í dag þessar 17 milljarða kr. aðhaldsaðgerðir sem eru meira á útgjaldahliðinni en við höfðum áður gert ráð fyrir. Þetta skiptir máli í baráttunni við verðbólgu. En ef hv. þingmaður heldur að það séu ríkisfjármálin sem ráði verðbólgunni í landinu þá er það mikill misskilningur. Og ef fólk heldur almennt að ríkisfjármálin séu eina tólið til þess að berjast gegn verðbólgu þá er það líka misskilningur. Ef menn vilja að hér séu teknar ákvarðanir sem stjórna verðbólgunni í landinu þá þurfum við að færa vaxtaákvörðunarvaldið hingað af því að það er eitt helsta tólið sem við höfum til að hafa áhrif á þróun verðbólgunnar.

Var staðan vanmetin? Ég get alveg haldið að hún hafi verið vanmetin, já, miðað við yfirlýsingar sem voru gefnar fyrir í kringum ári síðan. Mér fannst látið í það skína að menn væru hættir að hækka vexti, að það væri óþarfi að halda áfram. Mér fannst látið í það skína að hér hefðu verið gerðir ábyrgir kjarasamningar sem seinna kom í ljós að voru umfram framleiðnivöxt í landinu. Þannig að já, ég held að að einhverju leyti sé hægt að færa rök fyrir því, sem hv. þingmaður spyr hér um, hvort staðan hafi eitthvað verið vanmetin. (Forseti hringir.) En ef við skoðum afkomubata ríkissjóðs þá er alveg augljóst að ríkisfjármálin hafa staðið með því að lækka verðbólgu.