154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get haldið áfram að tala um þetta sama. Auðvitað hafa ríkisfjármálin áhrif og þau skipta máli í tengslum við þróun efnahagsmála. Það er akkúrat það sem ég er að segja. Mestu skiptir að ríkisfjármálin vinni ekki gegn peningastefnunni. Ég er að færa fyrir því rök að við höfum verið, m.a. með því að bæta afkomubatann, sem er líklega sögulegt met á Íslandi, að taka auknar tekjur til ríkisins og láta það bæta afkomuna en ekki láta það renna allt út í ný útgjöld. Þannig stöndum við með aðgerðum Seðlabankans sem ber aðalábyrgðina á því að halda aftur af verðlagsþróun í landinu, þ.e. verðlagshækkunum, á hverjum tíma.

Hér er spurt hvernig einstakar aðgerðir eiga að gagnast. Það skiptir máli, t.d. á íbúðamarkaði, að það sé ekki skortur á þeim hluta íbúðamarkaðarins sem stjórnvöld hafa ákveðið að styðja við og byggja upp þegar eftirspurnin er meiri en framboðið. Þær kerfisbreytingar sem við höfum gert undanfarin ár með húsnæðisbótakerfinu, með almennu íbúðunum, stofnstyrkjunum og öðrum slíkum úrræðum — ja, við höfum náð að leiða fram miklar breytingar og ég vil meina að þær hafi verið til góðs. Að þessu sinni erum við að stórauka við fjármögnun á stofnframlögum til að byggja almennar íbúðir og það hefur áhrif. Það að draga úr útgjöldum hefur áhrif. — Hv. þingmaður er hættur að hlusta þannig að ég er hættur að tala.