154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvert hv. þingmaður er að fara um það að ég hafi sagt að enginn skilji neitt í fjárlögunum. Það er einn þingmaður sem stóð upp og sagðist ekki skilja neitt í neinu og ég sagði bara: Ég finn til með þingmanninum, þetta er dálítið flókið mál. Svo er ég bara að eiga skoðanaskipti við fólk. Er fólk orðið eitthvað viðkvæmt fyrir því í þingsal (Gripið fram í.) að við skiptumst á skoðunum um það hvernig málum er stýrt hérna í landinu? Eru menn orðnir viðkvæmir fyrir því í þingsal? Öðruvísi mér áður brá.

Hér segir hv. þingmaður að hagvöxtur á mann sé meiri í nágrannaríkjunum heldur en á Íslandi. Þá vil ég bara segja það að hagvöxtur á mann hefur verið lækkandi hjá þróuðum ríkjum undanfarin ár og það hefur verið mikil áskorun fyrir okkur að sjá hagvöxt á mann vaxa undanfarin ár og mestur hefur vöxtur í landsframleiðslu verið vegna aðflutnings fólks. Við settum okkur markmið, eins og ég rakti aðeins í ræðu í gær, fyrir tíu árum síðan, um að auka hagvöxt á mann. Við höfum ekki náð þeim markmiðum að fullu en við höfum hækkað á lista ríkja OECD á þennan mælikvarða um fimm sæti. Þegar hér er komið upp í ræðustól og talað um að hagvöxtur á mann sé lítill á Íslandi þá er það alger misskilningur. Við erum í níunda sæti þjóða OECD yfir mestan hagvöxt á mann, sem er frábær árangur. Við erum á topp tíu listanum og það er ástæða þess að við getum gert kröfu um þau miklu lífskjör sem hér eru og geta verið áfram og við erum að hækka á þessum lista. Það er auðvitað auðvelt að koma hingað upp og segja við fjármálaráðherra: Af hverju erum við ekki efst í heimi? Ja, við erum á topp tíu listanum á þennan mælikvarða og getum verið mjög stolt af því og erum öfunduð í öðrum löndum af því hversu mikil verðmæti eru framleidd á hvern Íslending á hverjum degi í þessu góða landi. Þetta er það sem ég vildi segja af þessu tilefni.