154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi heildargjöldin er maður nú fljótur að finna það hér, það er strax á bls. 3. Heildargjöldin eru 1.394 milljarðar eða ég ætti að segja 1.395 vegna þess að þetta eru 1.394,8.

Varðandi kjarasamninga og frumvarp um stöðu ríkissáttasemjara hef ég talað fyrir því í mjög mörg ár að við myndum styrkja umgjörð embættisins og reyndar stendur það í stjórnarsáttmála að að því skuli stefnt. Ég er ekkert að draga fjöður yfir það að þetta mál hefði átt að klárast á vorþinginu, að mínu áliti. Það var þá sem málið var heitt, það var þá sem við vissum um hvað málið snerist, þá var allt þingið með góðri meðvitund um það á hvaða atriði hafði reynt, þá var málið sem sagt lifandi og hafði farið fyrir dómstóla og þar höfðu komið fram skýringar á túlkun ákvæða sem mikla þýðingu hafa. Fyrir mér var verkefnið tiltölulega einfalt. Þar fyrir utan hefði ég talið að ef ætti að hafa samráð um þetta efni þá þyrfti það ekki að taka mjög langan tíma og ef ekki hefur neitt þokast í því samráði núna þegar komið er fram í septembermánuð þá veit ég ekki hvaða vonir eru til þess að eitthvað leysist með frekara samráði til áramóta. En öllu skiptir auðvitað að málið er á þingmálaskrá.

Það á að leggja mat á áhrif allra frumvarpa og þar á meðal frumvarpið eða þingsályktunartillöguna sem myndi innleiða viðkomandi Evrópusambandsgerð sem hv. þingmaður vísar til um ETS og þegar það áhrifamat fer fram, ef til þess kemur, mun reyna á það hvort þessar tölur sem fleygt hefur verið fram í umræðunni eru réttar um áhrif á skipafélögin. (Forseti hringir.) En auðvitað er það þannig að ríkissjóður hefur öll færi á að nota tekjur af þessu sama kerfi til að styðja við orkuskipti hjá fyrirtækjunum.