154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa mikilli furðu á þessari ræðu gegn hagræðingaraðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég verð sömuleiðis að leiðrétta hv. þingmann þegar hún telur að heildaraðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar nemi bara þessum 17 milljörðum. Við erum líka í aðgerðum á tekjuhliðinni. Við erum t.d. að hækka skattinn á lögaðila á næsta ári og við munum fara í aðgerðir til að heimta meira af ferðaþjónustunni og fleira mætti þar telja. Þannig að heildaraðgerðir okkar eru langt umfram þessa 25 milljarða, sem ég sagði að væri lágmarkið til að hafa áhrif í efnahagslegu tilliti og stend við það.

Þegar hv. þingmaður talar um fjölskyldurnar sem finni ekki fyrir velferðarþjónustunni, er hún ekki bara tala um Samfylkinguna í Reykjavík sem er að bregðast heimilunum varðandi það að útvega þjónustu fyrir börn? Er ekki bara verið að tala um fjölskyldurnar sem koma ekki börnum á barnaheimili og upplifa þannig að velferðarþjónustan í Reykjavík sé að bregðast, vegna þess að það gengur ágætlega hjá flestum nágrannasveitarfélögunum? Er ekki hægt að draga þessa ræðu hv. þingmanns bara saman í það að það sem Samfylkingin vill er að hætta við hagræðingaraðgerðirnar, hækka skatta og stórauka útgjöld?