154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé einmitt þannig. Og það eru fjölskyldurnar í Reykjavík sem ekki koma börnunum á dagheimili eða leikskóla sem finna fyrir þessu sem hv. þingmaður er að tala um. Þetta á auðvitað bara að vera í lagi hér í Reykjavík eins og er á flestum öðrum stöðum. Auðvitað er það stefna, pólitísk stefna, að fara vel með opinbert fé. Nema hvað? Það þýðir ekkert að segja: Ja, er ekki bara hægt að reka þetta betur og svona? Sko, það gerist ekkert af sjálfu sér. Það sem við erum að gera hér er að við erum að útdeila fjárheimildum til ríkisstofnana og við erum að skera við nögl miðað við það sem við teljum að hægt sé að ná í rekstrarafkomunni. Þannig tökum við fjárheimildir af ríkisstofnunum sem gera kröfu til stofnananna um að þær nái árangri í innkaupum og í starfsmannahaldi og öðru slíku.

Þegar sagt er: Hvað er þetta, að hagræða bara í efsta stjórnsýslustiginu? Já, er það ekki einmitt þar sem við ættum helst að beita okkur? Ekki ætlum við að fara að draga úr fjölda þeirra sem eru á gólfinu, þeirra sem eru í framlínuverkefnunum. Má ég nefna það hér af því að spurt er: Hvernig er þetta með ráðuneytin? Það er viðbótaraðhaldskrafa á ráðuneytin umfram allar aðrar ríkisstofnanir. Ráðuneytin eru með viðbótaraðhaldskröfu og það má gera ráð fyrir því að þar muni verða einhverjar uppsagnir.