154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu og ég held að við séum sammála um að það skipti miklu máli að ná tökum á verðbólgunni og vaxtastiginu í landinu. Þannig hjálpum við öllu samfélaginu best og sérstaklega þeim sem hafa lægri tekjur á milli handanna eða hafa fengið mikla kostnaðaraukningu í afborgunum út af hærri vöxtum. En ég verð að segja að ég er svolítið áttavilltur eftir ræðu hv. þingmanns um það hvernig Flokkur fólksins ætlar að takast á við það að lækka verðbólguna og tryggja lægri vexti og annað þegar tillögurnar felast fyrst og fremst í aðgerðum sem setja enn þá meiri verðbólguþrýsting og eru ekki til þess að auka verðmætasköpun í landinu, sem er kannski það sem styrkir gjaldmiðilinn okkar og annað slíkt til að takast á við þessi vandamál. Svo ég byrji kannski hér í fyrra andsvari þar sem hann endaði síðasta andsvar sitt, varðandi leigubremsuna, hvernig hann geti sagt að framboð á húsnæði sé ekki vandamálið hér. Ég held að það sé einmitt eitt af stærstu vandamálunum. Því frekari álögur og allar álögur, kvaðir og bönn sem við setjum á fasteignaeigendur, verktaka og aðra hljóta að draga enn frekar úr því framboði sem er í dag. En helsta ástæðan fyrir því að verðbólgan fór upp er einmitt lóðaskortur og skortur á húsnæði. (Gripið fram í: Nei.) Það er stór partur af því. Þannig að ég er ekki alveg að skilja hvernig hann sér þessa leigubremsu vera svona frábæra lausn að þeim markmiðum sem mér heyrist við eiga sameiginleg.