154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. 1. þm. Norðvest. fyrir seinna andsvar sitt. Það er leigubremsa í öðrum ríkjum og ég tel að hún muni ekki hafa þau áhrif að eigendur húsnæðis hætti við að leigja. Það er ekki þannig, tekjurnar eru það miklar af þessu. Leigubremsa á að koma í veg fyrir það að það séu óeðlilegar hækkanir á fólk, launafólk sem er kannski með 3% hækkun á ári, það komi kannski skyndilega 20% hækkun á leiguhúsnæðinu. Það er það sem hún gerir, kemur í veg fyrir skerðingu á kjörum þeirra. Það sem gerðist eftir hrun var mjög áhugavert. Ég las frumvarp á sínum tíma, þegar leigufélögin fengu að kaupa húsnæði sem Íbúðalánasjóður sat uppi með. Hvað var gert? Þetta var afhent leigufélögunum, þau fengu húsnæði til að fara að leigja fólki í staðinn fyrir að lengja í bréfunum, stilla þau þannig af og hafa lánin til lengri tíma þannig að fólkið gæti borgað af húsnæðinu og eignast húsnæði. Það var ekki gert. Það er upphaf nútímaleiguliðavæðingar á Íslandi í húsnæðismálum. Það er þetta sem við þurfum að vinda ofan af, af þessum leigufélögum, og stuðla að því að fólk eignist sitt eigið húsnæði. Sjáum bara hvernig þetta er í Noregi. Það er miklu meiri stöðugleiki, miklu meiri eignamyndun hjá fólki sem á sitt eigið húsnæði. Það er það sem við þurfum að vinna að, ekki að moka undir leigufélögin þannig að þau gnæfi hér yfir öllu. Þetta er hluti af fjármálavæðingunni. Í staðinn fyrir að kaupa hlutabréf og skuldabréf þá kaupir fólk húsnæði og fer að leigja. Þetta er gert í stórum stíl í leigufélögunum. (Forseti hringir.) Þannig að ég óttast það ekki að fólk verði á götunni vegna leigubremsu.