154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst bara til að það sé skýrt að þegar ég var spurður hér í dag að því hvort verðbólguhorfur hefðu mögulega verið vanmetnar, þá sagði ég svo hafa verið líklega, já. Þá var ég ekki að tala um mínar eigin verðbólguspár. Ég var að tala um verðbólguspár Hagstofunnar og Seðlabankans og ég t.d. get vísað til þess þegar Seðlabankinn sagði 5. október 2022 eftir að fjárlagafrumvarpið var fram komið, hann hafði þá nýhækkað vexti, að þetta væri mögulega síðasta vaxtahækkunin. Það var sagt skýrt og sömuleiðis var sagt í desember að það væri mikið fagnaðarefni hvernig kjarasamningarnir litu út en síðar var sú fullyrðing dregin til baka og í millitíðinni höfum við heyrt Seðlabankann tala um að hann muni ekki hika við að fara í tveggja stafa tölu ef þess þarf. Þetta gefur mér vísbendingar um að menn hafi vanmetið verðbólguna. Höfum það í huga að þetta var eftir að fjárlög höfðu verið kynnt og síðan hefur afkoman, bæði árið 2022 og 2023, farið langt fram úr þeim áætlunum sem við vorum með í höndunum á þeim tíma. Þetta vildi ég nú bara benda á og þetta er til vitnis um að það eru ekki ríkisfjármálin sem hafa verið að valda einhverjum sérstökum vanda í þessu efni. En á eftir ætla ég að koma aðeins inn á vaxtamálin og önnur slík verkefni.