154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra andsvarið. Ég ætla áfram að leyfa mér að segja: Skárra væri það nú að hagstærðirnar væru ekki að færast til skárri vegar nú eftir tímabil heimsfaraldurs með þeim áhrifum sem hann hafði. Ég er nú þeirrar skoðunar að ýmsum aðgerðum hafi mögulega verið viðhaldið lengur en þörf var á sem kölluðu fram kostnað fyrir ríkissjóð en það er önnur umræða heldur en við tökum hér. Það að atvinnulífið hafi þann styrk sem það raunverulega hefur, að ferðaþjónustan hafi tekið við sér með þeim hætti sem raunin er, að verðbólgan hafi auðvitað jákvæð áhrif á sjóðstreymi og hagstærðir ríkissjóðs, það er bara eins og það er — þegar allt þetta leggst á eitt þá eru auðvitað undirliggjandi tölur að batna. Auðvitað má færa rök fyrir því að fyrsta skrefið sé að ná frumjöfnuði áður en heildarjöfnuði er náð eftir að komið er úr tímabili snúinna ríkisfjármála. En það sem ég hef gagnrýnt við frumjöfnuðarnálgun hæstv. ráðherra, ef við horfum til að mynda á útgjaldavöxtinn á milli ársins í ár og í fyrra og hversu mikill hann var, þá hefur mér þótt vera, ég hef leyft mér að kalla það metnaðarleysi í viðspyrnunni. Það er bara það sem ég er að kalla eftir, að fjárlaganefnd og hæstv. fjármálaráðherra sameiginlega snúi bökum saman og reyni með öllum ráðum að draga úr þessum útgjaldaþrýstingi hjá hinu opinbera (Forseti hringir.) sem hefur verið verulegur undanfarin misseri. Þá vildi ég gjarnan sjá tölur sem eru hærri heldur en til að mynda þær 17 milljarða aðhaldsaðgerðir sem kynntar hafa verið. Það er hárrétt að undirliggjandi tölur eru að batna (Forseti hringir.) en það er auðvitað að stórum hluta til vegna þess árangurs sem er að nást í atvinnulífinu eftir að Covid-aðgerðum lauk og verðbólgan spilar sína rullu eins og gengur.