154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um aðhaldið. Aðhaldið er ekki bara þessir 17 milljarðar. Aðhaldið birtist bæði á tekju- og gjaldahliðinni og er nær 35 milljörðum. Það eru aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til til þess að bæta afkomuna og afkoman hefði verið þeim mun verri ef þessar tillögur hefðu ekki komið fram.

Varðandi útgjaldavöxtinn þá vil ég bara minna á að hann er að langmestu leyti kominn til af launaþróun í landinu, af því að við höldum hér úti verðtryggðu almannatryggingakerfi þar sem allar bætur fylgja að lögum verðlagi eða launaþróun eftir því hvort er hærra. Ef við ætlum að ná aðhaldinu fram annars staðar á svona þröngum sviðum þar sem það gerist ekki á launaliðnum og ekki í bótakerfunum og ekki í heilbrigðiskerfinu og ekki hjá lögreglunni og ekki í samgöngum o.s.frv., þá erum við sífellt að beita aðhaldi á þrengri hluta heildarmyndarinnar og það getur yfir tíma verið dálítið vafasamt. Langbesta leiðin í þessu er auðvitað sú að það komist á betra jafnvægi í efnahagsmálum og að vinnumarkaðurinn sé ekki að taka meira út heldur en framleiðni stendur undir, framleiðnivöxturinn. Ég vil nú meina að eftir sögulegan afkomubata þá séum við komin á nokkuð góðan stað. En ég fagna þeim áherslum sem hv. þingmaður kemur hér með inni í þingsal að uppistöðu til um að halda hér uppi aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu. Það er alveg nákvæmlega það sem ég vil helst standa fyrir og þess vegna hef ég mælt fyrir fjármálareglunum og legg áherslu á að halda aftur af skuldasöfnun og að við náum heildarafkomu sem fyrst. En við skulum ekki hins vegar vera með óraunhæfar væntingar um að það gerist í einu skrefi vegna þess að við erum að koma úr mjög djúpri lægð eftir heimsfaraldur.