154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hugsaðu þér nú, hv. þingmaður, hvað við gætum unnið vel saman ef þú fengir að taka vinstri velferðina og ég hægri hagstjórnina. Ég hugsa að það kæmi býsna vel út. Þetta er ekkert sérstaklega flókið, hv. þingmaður. Ég hef verið að gagnrýna hér og við í Viðreisn það sem við köllum skort á aðhaldi og skynsemi, ráðdeild í ríkisrekstri. Ég hygg að það komi hv. þingmanni ekkert á óvart þegar ég segi að það er nálgun sem gjarnan hefur verið tengd við hægri hagstjórn. Það getur vel verið að það sé ósanngjarnt og mörkin á milli hægri og vinstri hafa jú verið að þynnast út, rétt eins og — ég get alveg sagt það — það fer í taugarnar á mér þegar vinstra fólk eignar sér nálgunina í velferðarmálum, af því að mér finnst hægrið ekki síður eiga heiðurinn af mörgum úrbótum þar, ég tala nú ekki um í samfélagi eins og á Íslandi þar sem samfélagssátt ríkir um velferðarþjónustuna. Það er engu að síður svo að það er býsna þekkt að velferðarmálin og áherslan á að leggja fjármagn í þau hefur í gegnum tíðina verið tengt við vinstrið, rétt eins og ábyrg efnahagsstjórn við hægrið. Ég ætla að vona að hv. þingmaður sé ekki ósammála mér í því að þetta sé skynsamleg nálgun fyrir samfélagið okkar.

Varðandi skattbyrðina þá höfum við í Viðreisn alls ekki verið ósammála því að skattbyrði verði jöfnuð, t.d. með því að skoða fjármagnstekjuskattinn. Við viljum sjá þær tekjur sem þannig koma til fara inn í kerfið aftur og til þeirra sem eru lægst launaðir, draga úr skattbyrði þeirra. Við teljum ekki að það eigi almennt að auka álögur frekar á almenning í gegnum skattkerfið. En þessar tilfærslur erum við til í og teljum sanngjarnar.