154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Já, ég hef áhyggjur af menningarstofnunum og það er rétt, við tölum allt of lítið um þær, allt of lítið, hérna inni á þingi. Yfir höfuð tölum við bara dálítið lítið um mennta- og menningarmál hér inni. Við gleymum okkur í einhverju öðru oft og tíðum, alla vega tala ég fyrir sjálfan mig og mér finnst almennt vera lítil umræða um þessi mál. Ég hef líka áhyggjur af þessu með menningarstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins. Ég man ekki hvort samningurinn t.d. við Menningarfélag Akureyrar var hækkaður fyrir tveimur árum eða eitthvað og þá var búið að reyna að toga það og kreista mjög lengi þannig að það næðist fram. Við þurfum að fylgja því eftir og halda utan um það. Það á auðvitað að halda í við þetta. Það er algjör fásinna að halda að landafræðin segi að Austurland eigi að njóta nálægðar við Akureyri. Þetta er auðvitað bara vitleysa. Ég veit að Austurbrú hefur reynt að halda dálítið vel utan um þetta en ekki alltaf uppskorið árangur erfiðisins í því og það er auðvitað okkar að reyna að gera betur þar og já, ég mun beita mér fyrir því að það verði skoðað.

Varðandi Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þá bara get ekki svarað því í augnablikinu.