154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum búin að starfa saman í þessi sex ár í fjárlaganefnd og hv. þingmaður talar um að lítið hafi gerst í breytingum en ég er ekki sammála því og ég held að hann sjálfur eigi stóran þátt í því að mjög margt hefur breyst. Það breytist ekki jafn hratt og við vildum, það er alveg augljóst. Ég er alveg sammála því. Aukið efni á netinu, aðgengi t.d., ég held að hv. þingmaður eigi stóran þátt í að ýta því hraðar úr vör heldur en gerst hefði. Það er samt sem áður mikill áhugi í fjármálaráðuneytinu á að breyta, á að reyna að hafa sem mest af þessum gögnum opið. Ég átti von á því að sjá örlítið þynnri doðrant heldur en núna, ég ætla alveg að játa það. Ég batt vonir við það því að það var einhvern veginn orðræðan þegar við vorum í vinnuhóp að hittast, eins og hv. þingmaður þekkir. Ég ætla að vona að vinnuhópurinn haldi áfram og fylgi þessu dálítið eftir og eigi þetta samtal um eitt og annað sem við höfum verið allt of léleg við að gera.

Það er alveg rétt að í síðustu fjármálaáætlunum var gert ráð fyrir hægari bata. Verðum við ekki að segja að sem betur fer hefur hann orðið hraðari? Það eru auðvitað fylgifiskar í því sannarlega sem birtast í ákveðinni innviðaskuld sem er hér undir og við erum að reyna að takast á við. En aðhaldið kemur til út af verðbólgunni fyrst og fremst sem við þurfum að reyna að ná utan um og förum þá kannski frekar dýpra í núna heldur en áður af því að það hefur gengið hægar að ná henni niður en við gerðum ráð fyrir. Engu að síður vona ég það svo sannarlega og sýnist allt stefna í rétta átt. Auðvitað skiptir það máli, eins og hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég, að allt hefur áhrif hvert á annað. Eins og hér hefur verið rætt hafa kjarasamningsviðræður og annað slík, það hefur allt áhrif. Ég vona að við náum að spila þetta saman, eins og ég sagði áðan í andsvari við annan þingmann, að allir þessir aðilar, því að það er hagur okkar allra, að það gerist að við náum góðu samtali sem þýðir að vextir lækki og verðbólgan taki þeim breytingum sem við viljum sjá og það verði ekki alveg langt fram á næsta ár sem við verðum að búa við svona háa verðbólgu. Ég mun koma til með að (Forseti hringir.) styðja hv. þingmann í því að við fáum breytingarnar áfram inn.