154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Varðandi aðhald og það sem við þekkjum og þetta samtal sem á sér stað í fjárlaganefnd þegar kemur að þeim fjármunum sem ráðherrar telja sig þurfa þá vilja allir meira. Ég held að allir geti nýtt meiri fjármuni, ég held að það sé þannig, af því að allir vilja gera allt fyrir sig og sitt. Engu að síður þá er það sem ég hugsa um þegar ég hugsa um flatt aðhald að það eigi ekki endilega við. Auðvitað erum við með ákveðin ráðuneyti undanþegin eins og við þekkjum. En ég ítreka að ég held að það sé skynsamlegra þegar við höfum einhvern almennilegan talnagrunn að geta horft til þess og sagt: Hér er hægt að fara inn og gera eitthvað á meðan að hér getum við það bara alls ekki af því að staðan er þannig akkúrat núna. Ég lít alla vega svo á að það sé kannski verkefnið sem er fram undan og hlýtur að verða ofan á, að búa til enn þá betri grunna þannig að við höfum meira til að moða úr.