154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:29]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024. Það er margt um að vera í fjármálum ríkisins og heilt yfir er mjög mikið af jákvæðari fréttum en vænta mátti í þessu fjárlagafrumvarpi en áskoranirnar eru miklar sem við stöndum frammi fyrir. Þar má náttúrlega fyrst og fremst nefna að það er of há verðbólga núna og vaxtaþrýstingurinn of mikill. Það er hið stóra verkefni en að sjálfsögðu þurfum við líka — það er margt sem hjálpar til við að draga úr verðbólgu, sem er byrjað að gerast, þar af leiðandi vaxtaþrýstingi líka, í gegnum fjárlögin þó að fjárlögin séu alls ekki eini þátturinn sem þar kemur, aðhaldsstig spilar stóra rullu eins og margt annað. Því er það jákvætt hvað afkomubatinn er miklu betri en spár gerðu ráð fyrir og áætlanir. Það sýnir okkur að við séum á mörgum stöðum á réttri leið og þurfum við að ýta undir að svo verði áfram og ég tel að það séu samt enn tækifæri til að gera enn betur eins og alltaf. Alls staðar er hægt að gera betur.

Það er mikið keppikefli fyrir okkur að ná því þannig að afkoma ríkissjóðs verði í plús þannig að það verði afgangur af rekstrinum. Það er jákvætt að sjá hér að það stefni í að það verði mun fyrr en búist var við og þurfum við samt að halda áfram að sýna mikinn aga í ríkisfjármálunum. Ég er mjög ánægður að sjá það í þessu fjárlagafrumvarpi að þrátt fyrir þennan mikla afkomubata er um leið dregið úr nýjum útgjöldum, þau eru stöðvuð, þannig að bæði eru áform um fyrri áætluð aukin útgjöld stöðvuð og engum nýjum útgjöldum bætt við þrátt fyrir betri afkomu heldur en að var stefnt. Þetta er dæmi um mikinn aga í ríkisfjármálunum sem er algjört grundvallaratriði og skiptir máli í því sem ég ræddi hér áðan varðandi verðbólgu og vexti.

Það kemur líka inn á hvað við getum svo gert, hvað er fleira sem kemur að því verkefni okkar heldur en agi í ríkisfjármálum og betri afkoma. Það er náttúrlega að við þurfum að byggja undir aukinn hagvöxt til þess að tryggja velferðina. Það er það sem þessi fjárlög eru að gera, tryggja grunnstoðirnar, grunnþjónustuna, en leggja áherslu á aðhald og sparnað í efri lögunum. En við þurfum líka að vinna þá með kjarasamningunum, að það komi ábyrgir kjarasamningar og annað og þar skipta húsnæðismálin miklu máli og svo að ef við stöndum með atvinnulífinu og sérstaklega útflutningsgreinunum, að auka bæði vöru- og þjónustuútflutning, þá styrkist krónan sem getur hjálpað okkur að takast á við þetta allt saman. Við þurfum að hafa stöðu atvinnuveganna og starfanna í landinu því að það eru þau sem skapa velferðina sem við búum við hér. Hér hefur verið stanslaus kaupmáttaraukning undanfarin ár. Það hefur verið mikill stöðugleiki þangað til núna eftir heimsfaraldur og það er allt út af því að atvinnulífinu hefur verið að ganga vel. Við þurfum að halda áfram að hlúa að því og fjölga stoðunum þar og það þurfum við að hafa skýrt í huga þegar við erum að fjalla hér um fjárlög.

En ég kom aðeins inn á húsnæðismálin. Það er fjármögnuð viss uppbygging í húsnæðismálum og ég er mjög ánægður að sjá þá áherslu og það sem stjórnvöld gerðu núna í lok sumars, að setja aukna áherslu á að rýmka fyrir hlutdeildarlánum því að hlutdeildarlánin eru kannski sá opinberi húsnæðisstuðningur sem kemur næst þeim vilja fólks að eiga sitt eigið húsnæði. Þar eigum við að vera en ég vil samt draga úr þörfinni á þessum útgjöldum úr ríkissjóði með því að gera allt sem við getum gert sem þjóð, það er fæst af því hér inni á Alþingi, held ég, en sem þjóð þurfum við — en hluti af því er hér á Alþingi — að draga úr byggingarkostnaði með einföldun á byggingarreglugerð og einföldun á öllu því eftirliti og því sem er þarna, gera það skilvirkara og hagkvæmara en án þess að gefa afslátt af gæðunum, alls ekki.

Það þarf að fjölga lóðum en það þarf líka að auka fjölbreytni lóða. Ég hef miklar áhyggjur af því að öll sú uppbygging sem er fram undan er í óhagnaðardrifnum leigufélögum, félagslegu húsnæði og allt einhverju svona fyrir fram skilgreindu íbúðaformi, í staðinn fyrir að bara — hvar er það sem almenningur vill búa? Hvernig íbúðir vill hann byggja sér eða fjárfesta í og hvernig vill hann búa? Við þurfum að gefa það miklu frjálsara. Ég hef miklar áhyggjur af því að heyra að það sé upp undir 17–20 milljóna lóðakostnaður fyrir eina íbúð í fjölbýli. Þetta getur ekki gengið og þeir einu sem fá þetta í hausinn eru þeir sem þurfa að kaupa þessar íbúðir og þeir þurfa að borga hærri fjármagnskostnað. Þetta getur ekki gengið svona. Þetta hækkar svo íbúðaverðið sem hækkar svo aftur fasteignagjöldin. Ég held að það sé grundvallarmál til að ná hér öryggi fyrir heimilin, ná hér niður þessum þensluhvetjandi áhrifum sem húsnæðismarkaðurinn er undir og þessum hindrunum inn á húsnæðismarkaðinn og þar af leiðandi líka hindrunum í að byggja fleiri, það er að fjölga lóðunum og tegundum lóðanna, auka frelsi um fjölbreytni bygginga sem má byggja þar upp og draga úr þessum fjármagnskostnaði sem fer í það eitt að borga fyrir lóðina sjálfa og svo öllum leyfisgjöldum og fasteignagjöldum og eftirlitsgjöldum og lengi mætti telja. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir heimilin og þarna þurfa sveitarfélögin að koma með okkur í þetta og þau bera mjög mikla ábyrgð þarna gagnvart sínum íbúum, mjög mikla ábyrgð.

Ég talaði um hagvöxtinn og velsældina, að það sé ekki gert nema með öflugra atvinnulífi og það gerum við líka gegnum auðlindanýtingu. Öflug ferðaþjónusta gegnum auðlindanýtingu á náttúrunni, aukin orkunýting þannig að við getum verið að skapa mikil verðmæti gegnum orkuna okkar, nýta auðlindir hafsins og vindsins og bara hvaða auðlindir sem við erum með, við erum auðlindaríkt land — þetta þurfum við að nýta á sjálfbæran og ábyrgan hátt til aukinnar verðmætasköpunar. Því öflugra sem þetta verður því meiri fjármuni fáum við inn til þess að styrkja gjaldmiðilinn okkar en líka til að borga hér fyrir mikilvæga innviði eins og heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið, almannatryggingakerfið og samgöngurnar og aðra mikilvæga innviði. Þar er nefnilega svo mikilvægt fyrir okkur að fá þessa öflugu innviði, flutningskerfi raforku, hitaveitur, samgöngurnar allar, hvort sem það eru almenningssamgöngur, flugsamgöngur — sem eru vissar almenningssamgöngur — hafnirnar, vegina, göngin og lengi mætti telja. Þetta skiptir okkur svo miklu máli. Þarna koma tækifærin.

Ég vil líka segja í þessu efni að það er alltaf talað um þessa innviðauppbyggingu, hvort sem það er heilbrigðisþjónustan, vegirnir eða eitthvað, út frá íbúafjölda og talað um hvað búi margir á hvaða landsvæði og annað slíkt. Þetta er bara ekki svona. Ég vil horfa miklu frekar á hvaða verðmæti séu óútleyst á öllum þessum stöðum. Íbúatalan á Íslandi segir lítið til um þetta, bæði út af eðli margra starfa úti um landið, þá eru þar oft farandverkamenn sem eru ekki skráðir, eru tímabundið í sveitarfélaginu og annað en eru samt íbúar en svo er líka töluvert af ferðaþjónustu og öðru slíku þannig að það eru margfalt fleiri virkir aðilar á hverju svæði. Ég vil nefna eitt dæmi í Skaftafelli fyrir fimm árum síðan. Í Öræfunum eru um 70 manns skráðir með lögheimili en á hverjum einasta degi eru þar 2.500 virkir GSM-símar. Þar er atvinnulíf sem skapar þessa umferð. Það þarf þessa innviði, þá þurfum við innviði fyrir þessa 2.500 sem eru á ferðinni, hvort sem það er heilsugæsla eða samgöngur, en ekki fyrir þessa 70 íbúa. Svona þurfum við aðeins að horfa á þetta. Þessir 70 skráðu íbúar og þessi samfélög eru allan daginn að segja: Hvernig nýtum við náttúruna? Hvernig nýtum við þau tækifæri hér? Þau eru að skapa miklu meiri verðmæti en þessir innviðir kosta. Svona þurfum við að fara að horfa á þetta.

Talandi um, þarna var ég að koma inn á grunnþjónustuna. Þá skiptir nefnilega máli þegar við erum að ræða t.d. fjárlögin að við forgangsröðum í þetta, í þessa innviðauppbyggingu og í þessa grunnþjónustu. Það skiptir miklu máli og það eru kannski einu auknu útgjöldin sem ég vil tala hér skýrt fyrir, það er að draga algjörlega úr hagræðingarkröfunni á lögregluna. Við höfum verið að bæta verulega í lögregluna undanfarið og er þar mikil þörf. Það er 214 millj. kr. hagræðing á heildarmálaflokkinn sem smitast inn á lögregluna. Það er hagræðing sem við verðum að taka í burtu af því að lögreglan er þessi grunnþjónusta sem við viljum verja. Hún tryggir öryggi, sinnir þessum auknu umsvifum, við erum bara í breyttum heimi, auknum ferðamannafjölda, auknum íbúafjölda og annað slíkt.

En ég vil líka nefna dæmi um það að það er bara með góðri samvisku sem ég get talað fyrir auknu fjármagni til lögreglunnar af því að það er búið að fara í gegnum kerfi lögreglunnar aftur og aftur á undanförnum árum til að finna alltaf hagkvæmara og betra kerfi fyrir lögregluna, hvernig nýtum við fjármunina betur, hvernig sinnum við verkefnunum á skilvirkari og betri hátt, og hefur farið gríðarlega mikil vinna í það. Við erum að sjá afrakstur þeirrar vinnu núna með uppbyggingu á miklu betri og auknum rannsóknum á kynferðisbrotum sem eru búnar að skila gríðarlegum árangri í að auka málshraðann og vinna málin niður hratt en vel. Við erum að sjá miklu stærri og betri og öflugri rannsóknir gagnvart skipulagðri brotastarfsemi. Það eru komnar auknar áskoranir í almannavörnum og nú erum við að sjá almannavarnafulltrúa koma út til lögregluembættanna og búa til þann styrk. Við erum búin að gera öflugt og stórt embætti héraðssaksóknara þannig að það er búið að gera gríðarlega miklar breytingar þarna til að nýta fjármunina betur og gera störf lögreglunnar skilvirkari og öflugri og það hefur þurft aukið fjármagn. En það hefur líka verið hagrætt þarna vel þannig að við þurfum að standa með þessu.

Annað sem ég vildi nefna að eru vel nýttir peningar og rétt forgangsröðun, það er að hjálpa þriðja geiranum. Þar má nefna björgunarsveitirnar sem eru að spara okkur gríðarlegan rekstur, innan landhelgisgæslu, innan björgunargeirans og annars eins og slökkviliðs og lögreglu og annars, það er svoleiðis þriðji geiri sem við þurfum að horfa á. Þar má líka horfa á SÁÁ, Hugarafl, Geðhjálp og alla þessa sem eru að sinna fólki á jafningjagrundvelli, þarna gera þau 10 kr. úr hverri krónu sem þau fá, KFUM og K og fleiri. Þetta er alveg gríðarlega öflugt starf sem þriðji geirinn er með á svo mörgum sviðum. Ég gæti talið upp langa lista yfir hann, sem við þurfum að standa með og gera gott úr rekstrinum. Ég tala nú ekki um öll íþróttafélögin í landinu, ekki bara sérsamböndin heldur bara hvert einasta íþróttafélag í landinu, það er að gera gríðarlega — og við þurfum að horfa til þeirra, menningin er mikilvæg og ég segi að það er alls ekki síður landkynning, lýðheilsa og annað sem og verðmætasköpun sem íþróttahreyfingin, hvert einasta íþróttafélag sem er inni í íþróttahúsunum, úti á íþróttavöllunum alls staðar, er að gera og við þurfum að standa vörð um þetta, gríðarlega mikilvægt.

Ég tala um þessa forgangsröðun og hún skiptir máli. Ég lýsti því hvernig er búið að gera miklar skipulagsbreytingar og fara yfir hvert verkefni og velta við hverjum steini í lögreglunni. Þetta þurfum við að gera enn markvissara í öllu heilbrigðiskerfinu eins og það leggur sig. Það hafa verið stigin góð skref þar eins og ég fór yfir í andsvari í dag. Það var verið að opna nýja einkarekna heilsugæslustöð á Suðurnesjum núna á mánudaginn. Það er búið að gera samning við sérgreinalækna og margar nýjungar hafa komið upp í hjúkrunarmálum sem við þurfum að nota og þar eru enn þá algjörlega risastór tækifæri til hagræðingar auk þess að veita betri þjónustu og stytta biðlista og annað slíkt sem við þurfum að gera. Ég held að þó að hér sé aðhald í þessum fjárlögum og ekki ný útgjöld þá séu enn þá risastór tækifæri til þess að gera enn þá betur á mörgum stöðum, hægt að gera enn þá betur. Við eigum alltaf að vera að hugsa um það hvernig nýtum við peningana betur og þá vil ég tala um rammasett útgjöld. Ég talaði um þetta í ræðu minni hér fyrir ári síðan, ég spurði alla ráðherra þegar þeir komu fyrir fjárlaganefnd: Eru einhver verkefni hjá ykkur sem er hægt að breyta, hægt að gera betur, jafnvel hætta? Ef ráðherra vantar fjármuni innan sinna málaflokka, nýja fjármuni í önnur verkefni, geta þeir kannski hætt einhverju öðru minna mikilvægu verkefni og reynt að forgangsraða innan síns ramma og gera hlutina á betri hátt? Það hefur verið gert, sem er vel, innan fjármálaráðuneytisins sem er gríðarlega öflugt, að setja áherslu á stafrænt Ísland, á sameiginleg innkaup, betri nýtingu húsnæðis. Það er búið að gera þann grunn til að hjálpa öllum stofnunum og ráðuneytum ríkisins að gera betur í rekstri sinna eininga. Stafrænt Ísland er að spara bæði almenningi og skattgreiðendum gríðarlegan tíma og fjármuni, spara þeim fleiri þúsund ferðir til sýslumanna, spara tíma við að fara úr vinnu og annað og geta gert þetta bara rafrænt í gegnum vinnuna. Þetta minnkar alla bakvinnslu í öllum stofnunum og dregur úr kolefnisspori o.s.frv. þannig að þetta er gríðarlega mikilvægt. Með stafvæðingu, húsnæðiskostnað ríkisins og sameiginleg innkaup þá getum við alveg notað orðatiltækið að margt smátt geri eitt stórt og þetta mun skipta miklu máli og þá getum við notað það sem eftir verður til þess að greiða niður skuldir og laga afkomuna enn betur, jafnvel nýta til uppbyggingar á innviðum eða inn í grunnþjónustuna sem býr við aukið álag, eins og ég sagði, með stækkandi þjóð, fjölbreyttari þjóð og fleiri gestum og stærra atvinnulífi. Þetta hefur allt saman áhrif.

Ég held að með því að fara betur með fjármagn, hagræða og annað slíkt þá getum við komist hjá því að setja álögur á fólk og fyrirtæki. Við eigum að gera allt til þess að draga úr þörfinni fyrir auknar álögur. Það verðum við að gera og þurfum að leita allra leiða til þess. En ég get líka oft séð að með því að draga úr álögum erum við að skapa betra umhverfi fyrir fólk til að standa á eigin fótum og fyrir fyrirtæki að vaxa og skapa aukin verðmæti. Skattalegir hvatar t.d. eru mjög góð leið til þess að skapa aukin verðmæti fyrir okkar sameiginlegu sjóði þannig að ég vil ekki horfa á skattalega hvata sem beinan kostnað eins og alltaf gerist í þessu excel-skjali, eins og ég kalla þetta, í þessari fjárlagavinnu.

En það eru til tekjur sem við getum sótt og eigum að sækja, ég ætla ekkert að draga úr því. Mér finnst að það hafi gengið of hægt að ákveða hvernig við ætlum að fjármagna samgöngukerfið okkar og taka tekjur af umferð. Með því að hafa skýrt og gott kerfi þar erum við líka að fá gesti okkar til þess að borga, þá er ekki bara þjóðin að borga fyrir innviðina heldur líka þeir gestir sem koma og nýta þá og atvinnulífið og aðrir. Þar vil ég að við drífum okkur í því að setja á bara einfalt kílómetragjald og tökum þá alla aðra gjaldtöku af umferð, einföldum kerfið, tökum kílómetragjald, þeir borga sem nota. Þú getur valið aðra ferðamáta ef það er möguleiki eða annan eldsneytisgjafa og annað til að draga úr kostnaði og rekstrarkostnaði. Við fáum þá um leið tekjur til að standa undir okkar mikilvægu innviðum. Þetta er gríðarlega mikilvægt.

Varðandi ferðaþjónustuna þá eigum við að vera algjörlega óhrædd að láta fólk borga fyrir að njóta okkar náttúru og nýta okkar innviði og það er hægt að gera á margan hátt. Þá erum við aftur að segja að þeir borgi sem njóta. Okkur dettur ekki í hug að fara í bíó, á leiksýningar eða nota einhverja innviði nema þurfa að borga fyrir það. Við borgum í sundlaugar og í baðlón, það er bara eins með ferðamannastaðina þar sem þarf að byggja upp salerni, bílastæði, göngustíga, hafa landvörslu og gera þolmarkarannsóknir og lengi mætti telja. Þetta hefur verið gert með góðum árangri á Þingvöllum og er byrjað á tveimur stöðum í Vatnajökulsþjóðgarði. Greiðsluviljinn hjá gestunum okkar er mikill og á Þingvöllum sem dæmi eru yfir 600 millj. kr. í sértekjur þar sem velta er um 700 millj. kr. á ári hverju. Þetta skiptir miklu máli. Þarna er hægt að tryggja öryggi gesta, við höfum t.d. ráðið sjúkraflutningamann og annað slíkt og þarna þurfum við að fara vel með.

Ég er búinn að tala mikið um mikilvægi innviða og þessarar grunnþjónustu og slíkt og þótt hér sé aðhald og mjög margt gott í þessum fjárlögum þá trúi ég því að við getum gert betur, líka í því hvernig við ætlum að fjármagna innviðauppbyggingu og komast í það að minnka skuldirnar.

Þá langar mig í lok minnar ræðu að koma inn á nokkrar tillögur að hagræðingu og sölu ríkiseigna, sem ég held að við ættum að ráðast í. Við getum náð enn stærri skrefum þar en sjást í þessu frumvarpi. Þar vil ég kannski bara fyrst nefna sjálft Ríkisútvarpið sem einhvern veginn í gegnum lög hér er í algjöru skjóli frá því að takast á með okkur hinum við alla þá hagræðingu og áskoranir sem efnahagsástandið sem er hér kallar á. Þeir fá bara sjálfkrafa verðbættan samning um sitt útvarpsgjald sem við skattgreiðendur borgum og svo fjölgar alltaf útsvarsgreiðendunum einnig og það kemur líka til þeirra þannig að framlög þjóðarinnar til Ríkisútvarpsins eru komin í yfir 6 milljarða, meðan allar aðrar stofnanir, eins og ég fór hér yfir, meira að segja lögreglan, fá hagræðingarkröfur. En það kemur ekki á þessa stofnun af því að hún heitir ohf. og er með svona samning. Þetta getur ekki gengið. Við erum t.d. að auka hér framlög í gegnum skattalega hvata til einkarekinna fjölmiðla. Við eigum að geta hagrætt hjá Ríkisútvarpinu til að nýta í svona útgjöld. Við erum með alls kyns menningu og sjóði og annað slíkt sem þurfa á fjármagni að halda. Við getum hagrætt hjá Ríkisútvarpinu og nýtt fjármagnið til þeirra aðila og dregið þannig úr kostnaði.

Við erum með Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hversu mikla fjármuni, skattfé, eru skattgreiðendur með bundið í húseignum hringinn í kringum landið til að selja áfengi? Þarna held ég að sé fullt af peningum sem við getum losað út. Það er algjörlega grátlegt fyrir skattgreiðenda að keyra um landið og sjá stórar eignir þar sem verið er að selja eina tegund af vöru. Eina tegund af vöru, oft stærri eignir heldur en kjörbúðin á staðnum af því að hún er ekki til staðar. En áfengi skal samt selt með stuðningi skattgreiðenda.

Íslandspóstur er í samkeppni við litla aðila hringinn í kringum landið og er að draga úr vexti einkaframtaksins á póstmarkaði og flutningamarkaði. Við erum að borga þeim 600–700 milljónir ári fyrir að draga úr þjónustunni. Ég get upplýst þingheim um það að við erum að borga Íslandspósti 600–700 milljónir á ári. Það var póstlagt bréf þar sem mér var tilkynnt sem alþingismanni að mér væri boðið til Reykjavíkur 12. september til að vera við setningu Alþingis. Það var póstlagt 7. september. Mér barst bréfið í gær, 13. september, þá fékk ég bréfið. En samt er ég að borga þessu fyrirtæki 600 milljónir til að kæfa samkeppnina og tryggja alþjónustu. Þessir aðilar sem þeir eru í samkeppni við eru með þjónustu fimm til sjö daga vikunnar. Við erum að greiða fyrir verri þjónustu og þarna þurfum við heldur betur að taka til hendinni.

Isavia. Við erum að tala um hér að okkur vantar að byggja upp flugvelli hringinn í kringum landið, vera tilbúin fyrir rafflugið, að dreifa ferðamönnunum, tryggja öryggi, sjúkraflug og annað, draga úr umferðinni á vegunum. Við þurfum að styrkja vegakerfið okkar, gera göng, stækka vinnusóknarsvæði, auka hagkvæmnina og hagvöxtinn og annað slíkt. Á meðan eigum við fyrirtæki eins og Isavia með yfir 200 milljarða sem eru í áhættufjárfestingum á Keflavíkurflugvelli. Þar eru bara 200 milljarðar sem skila ekki krónu í arð í ríkissjóð. Ef við gætum losað u.þ.b. 100 milljarða þar í innviðauppbyggingu og niðurgreiðslu skulda þá væru þeir peningar að fara að vinna fyrir okkur skattgreiðendur. En þarna liggja þeir algerlega og það eina sem þeir gera er að skapa aukna áhættu af þeim framkvæmdum sem eru á Keflavíkurflugvelli núna. Þarna þurfum við að hugsa stórt og leysa margan vanda með þessu.

Varðandi hjúkrunarheimilin þá þurfum við að hugsa um uppbyggingu fyrir okkar besta fólk sem er búið að vera að byggja upp þessa þjóð. En við hugsum þetta alltaf í steypu, hvað við ætlum að byggja mikið og svo fer þetta allt fram úr kostnaðaráætlun og tekur tíma. Ég held að þarna eigum við að leyfa fagfólkinu að koma með lausnir og veita þjónustuna og leyfa okkar eldri borgurum að velja sína búsetu sjálfir. Við sjáum t.d. öryggisíbúðir sem eru að byggjast upp þar sem er mikið félagslíf, það er hægt að fá alla þjónustu innan húss, það skapar mikið öryggi og fólk getur þá búið lengur heima hjá sér, það er hagkvæmara að veita heimaþjónustu og heimahjúkrun og annað slíkt. Við þurfum að fara að hugsa einhverjar aðrar leiðir þarna heldur en að hugsa um hvað við getum byggt mikið, steypt mikið.

Greiðsluþátttakan. Sumt er niðurgreitt 100%, valkvæðar aðgerðir eins og ófrjósemisaðgerðir og fleira. Þarna er örugglega stór þáttur sem við getum fært á nytsamlegri staði.

Ég kom aðeins inn á rammasettu útgjöldin áðan, það eru örugglega á mörgum stöðum einhver verkefni sem bara halda alltaf sjálfkrafa áfram, þar er ramminn kannski 10 milljarðar en svo er farið aðeins yfir það og þá pælum við bara í peningunum sem fara yfir þessa 10 milljarða, en hvernig er þessum 10 milljörðum sem voru fyrir varið? Við þurfum að fara að skoða þetta í hvert skipti, það þarf að skoða hvert einasta verkefni aftur og aftur svo að við séum alltaf viss um að við séum að fara eins vel með fjármagn og hægt er.

Hérna hef ég farið yfir bara nokkur atriði sem geta sparað okkur marga milljarða, tryggt uppbyggingu innviða og greitt niður skuldir og aukið agann í ríkisfjármálum. Það er aginn bæði í ríkisfjármálunum, í Seðlabankanum og á vinnumarkaði sem skilar okkur mesta stöðugleikanum og hagkvæmustu kjörum fyrir heimilin. Það er algerlega ljóst.

Að lokum vil ég segja um fjármögnun innviðauppbyggingar að við þurfum að komast í uppbyggingu orkuinnviða, bæði flutningskerfisins og orkuöflunar, en líka samgönguinnviða. Setjum á kílómetragjaldið, fáum einkaframtakið til að taka að sér fleiri samgönguframkvæmdir, hvort sem það eru hafnir eða vegir eða göng eða hvað það er, og fjármagna það með sértækum notendagjöldum og þannig getum við byggt upp öflugt innviðakerfi sem gerir enn öflugra atvinnulíf. Og því öflugra atvinnulíf og betri fjárhag og efnahag sem við sköpum, því meiri velsæld og betri lífskjör verða hér á landi. Þau eru ein þau bestu á byggðu bóli nú þegar en við getum gert betur.