154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:28]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Ég get tekið undir margt í ræðunni um að við þurfum að finna lausn á verðbólgunni og vaxtastiginu og að við viljum að fólk geti búið við öruggt og rólegt ævikvöld í öruggu húsnæði — og allar fjölskyldur. Það er grundvöllurinn, að sem flestir geti eignast sitt eigið húsnæði og að það sé stöðugleiki og ekki skyndilega miklar breytingar sem setja þetta allt saman í óöryggi og ógna stöðu heimilanna. Við erum algerlega sammála um þetta. Ég verð að viðurkenna að ég heyrði ekki mikið í ræðu hv. þingmanns um einhverjar lausnir á vandanum eða hvernig við getum leyst þetta eða hvernig það hjálpi málinu að benda á að einhverjir séu að græða á þessu ástandi. Ég veit bara ekki um neinn. Ég veit ekki til þess að bankarnir eða eitthvert fyrirtæki eða atvinnulífið í landinu eða einhver hér inni í þessu húsi sé ánægður með verðbólguna, sé að fagna því að hér sé hátt vaxtastig og verðbólga. Ég veit ekki um einn einasta aðila sem myndi fagna þessu. Ég held að við séum, öll þjóðin og atvinnulífið, sammála um að við viljum sjá þetta vaxtastig fara niður. Ég bara bendi hv. þingmönnum á að út af verðbólgunni er afkoma ríkissjóðs ekki jafn góð. Það er aukinn vaxtakostnaður ríkissjóðs. Þó að við fáum auknar vaxtatekjur einhvers staðar eru vaxtagjöldin bara meiri annars staðar. Það er almennt þannig. Ég spyr: Hverjar eru þessar lausnir sem hv. þingmaður sér á þessu, aðrar en að sýna aga í ríkisfjármálum, reyna að hægja á þenslunni og stuðla að ábyrgum kjarasamningum á vinnumarkaði? Hvaða aðrar lausnir sér þingmaðurinn á þessu?