154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er búið að tala ansi mikið um efnahagsþáttinn í þessu fjárlagafrumvarpi þannig að ég held að ég ætli ekki að bæta í þá umræðu — og þó. Engin störf á dauðri jörð var nú yfirskrift á ráðstefnu sem var haldin af ASÍ og öðrum heildarsamtökum verkafólks á Íslandi fyrir tveimur, þremur árum þar sem var verið að fjalla um umhverfis- og loftslagsmál og þá staðreynd að ef við göngum það nærri jörðinni, ef við göngum það mikið fram af vistkerfum jarðarinnar, ef við keyrum loftslagsbreytingar það langt áfram þá þurfum við ekki að spá mikið meira í annað, þá erum við ekki með það velsældarsamfélag sem við teljum okkur búa í. Við þurfum að takast á við loftslagsvandann samhliða öllum öðrum verkum okkar vegna þess að ef við gerum það ekki erum við ekki að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, við erum að ræna þær framtíð sinni. Þess vegna langar mig að fjalla um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að þessum þáttum.

Mig langar að byrja á því að tala um Noreg, frú forseti, af öllum stöðum. Ég held að núverandi forseti kunni nú að meta það að heyra aðeins sögur af Skandinövum. Norðmenn eru dálítil ólíkindatól; mesta olíuframleiðsluríki í heimi en jafnframt með einar metnaðarfyllstu loftslagsáherslur sem fyrirfinnast í lagasafninu. Það er ákveðin togstreita inni í þeim sem er kannski stundum erfitt að skilja. Ég ætla að leggja olíufýsnina aðeins til hliðar og fjalla um norsku fjárlögin vegna þess að þar er búið að búa til kerfi sem okkur vantar sárlega. Í norskum loftslagslögum stendur nefnilega að samhliða framlagningu fjárlaga eigi yfirvöld, eigi stjórnvöld, eigi ráðherrar að leggja fram, nú man ég ekki alveg hvað norska orðið var en ég held að við getum kallað það ársskýrslu um stöðu aðgerða í loftslagsmálum. Í þessari ársskýrslu á líka að koma fram hvernig fjárlagafrumvarpið sem lagt er fram mun hafa áhrif á loftslagið. Það fylgir sem sagt gróft loftslagsmat fjárlögum norska ríkisins þar sem kemur jafnframt fram hvernig aðgerðir þess standa á þeim tímapunkti. Með þetta í höndunum getur norska þingið tekið upplýsta afstöðu til þess hvort verið sé að færast aftur á bak eða áfram, hvort þau séu sameiginlega á réttri leið og standi sig vel. Við höfum ekki neitt svona, við erum í algjöru blindflugi. Við bara tökum við fjárlögunum og rennum í gegnum þau. Í 1. umræðu þurfum við að reiða okkur á eigið hyggjuvit. Í 2. umræðu fjárlaga getum við kannski stólað á umsagnir einhverra sérfræðinga úti í bæ. Norðmenn eru búnir að skylda ráðherrana sína til að gera þetta gagnsætt og opið, eins og við gerum t.d. varðandi fjármálaáætlun þar sem fjármálaráðherrann þarf bara að fá sérstakt ráð sérfræðinga til að vinna álit. Ef við hefðum haft svona verkfæri í höndunum, ef við hefðum hér á Alþingi Íslendinga verið með almennilegt mat á því hvaða árangri tilteknar aðgerðir myndu skila þá er mér t.d. til efs að þegar við vorum að ræða fjárlög fyrir árið 2021 og tekjubandorminn því til hliðar hefði verið ákveðið í umfjöllun Alþingis að framlengja ívilnun til tengiltvinnbíla á þeim tímapunkti. Það kostaði marga marga milljarða í farartæki sem gengu að einhverju leyti, meira að segja að talsverðu, fyrir jarðefnaeldsneyti á tíma og við áttum að vera að setja alla okkar ívilnandi krónur í áttina að einhverju sem var eingöngu grænt.

Eins efast ég um að almennilegt loftslagsmat hefði hleypt hinum ýmsu ívilnunum til bílaleigna í gegn sem hér var þó gagnrýnt að orkuðu í það minnsta tvímælis. Stjórnarþingmenn gátu hunsað þau varnaðarorð og sagt að þar væri fólk bara eitthvað að misskilja og það var enginn hlutlaus aðili sem var hægt að leita til og biðja um að segja okkur hvort þetta væri til góðs eða ills. Þannig var ákveðið 2021, að mig minnir, að veita bílaleigum styrk til að hvetja þær til að kaupa rafmagnsbíla en styrkurinn lagðist á bensínbílana sem þær keyptu þannig að ef þær keyptu 10% rafmagnsbíla það árið gátu þær fengið, hvort það var 200.000 eða 300.000 kall á hvern bensínbíl sem þær keyptu. Svo er náttúrlega búið að ræða dálítið í þessari umræðu milljarðinn sem bílaleigurnar fengu í beinan rafbílakaupastyrk á yfirstandandi ári, á sama ári og þær eru að mala gull. Það er myljandi gróði á bílaleigum.

Allar þessar ákvarðanir snúast um ráðstöfun á miklum sameiginlegum fjármunum í þágu loftslagsmála, alla vega í orði kveðnu, án þess að það liggi fyrir eitthvert mat á áhrifunum, án þess að það liggi fyrir hversu margir olíulítrar sparast fyrir hverja krónu, gróft sagt. Þetta er það sem við köllum stundum abstrakt, að styrkja stjórnsýslu loftslagsmála, sem þarf að gera. Það að styrkja stjórnsýslu hljómar kannski ekkert geggjað spennó en snýst um þetta, að við séum að taka upplýstar ákvarðanir um málaflokk sem snýst hvorki meira né minna en um framtíðina.

Áhrifamat er eitthvað sem hefði verið gott að hafa með því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum hér í dag vegna þess að ég held að það sé ekki öllum ljóst hvort er verið að taka skref áfram eða aftur á bak í þessu frumvarpi. Þannig orðaði hv. þm. Jódís Skúladóttir það svo í ræðu sinni hér í dag að framlög til loftslagsmála væru að aukast, þó ekki jafn mikið og hún hefði viljað sjá. En mig langar, frú forseti, að rekja hér aðeins hvernig framlögin eru í rauninni að dragast saman og það töluvert. Það stendur í greinargerð frumvarpsins, svart á hvítu: „Framlög til umhverfis-, og orkumála aukast um 5,8 milljarða frá fjárlögum fyrra árs … “ Svo heldur þetta áfram og þá segir: „Hækkunina má að stærstum hluta skýra með 7,5 milljarða framlagi til Orkusjóðs sem ætlað er að stuðla að orkuskiptum.“ Sem sagt: Framlögin til þessa málaflokks aukast um 5,8 milljarða vegna þess að 7,5 milljarðar voru færðir af öðrum lið. Þetta er peningur sem var inni í síðustu fjárlögum, peningurinn var bara á gjaldahliðinni. Þetta eru ívilnanir til ökutækja sem voru teknar í gegnum tekjubandorminn og snerust um niðurfellingu á gjöldum á hreinorkubíla. Nú er verið að færa þennan pening yfir á útgjaldahliðina, inn í fjárlögin, og þá lítur það út eins og fjárlögin séu að stækka þarna um sem nemur þessari tölu. En þetta er peningur sem var nú þegar til staðar í kerfinu. Þannig að það sem er kallað 5,8 milljarða aukning er í rauninni, þegar við tökum frá þessa 7,5 milljarða sem voru bara færðir á milli dálka, lækkun um 1,7 milljarða til umhverfis- og orkumála. Ef við skoðum þessar 7,5 milljarða verður myndin enn dekkri vegna þess að þeir eru fengnir úr því sem hét áður ívilnanir til ökutækja og voru 12,3 milljarðar, þannig að samhliða tilfærslunni á stuðningnum er hann lækkaður um 4,8 milljarða. Nú ætla ég ekki að segja að það sé endilega vitlaust á þessum tímapunkti að draga aðeins úr stuðningi til kaupa á rándýrum glænýjum rafmagnsbílum. Það er mjög eðlilegt á þessum tímapunkti í orkuskiptum að við endurskoðum öll þau plön, en við eigum þá kannski að gera eitthvað með þann pening sem losnar við það. Í staðinn eru þessir 4,8 milljarðar bara látnir gufa upp.

Ef við tökum saman þessa 1,7 milljarða lækkun á beinum framlögum til umhverfis- og orkumála, sem sagt 1,7 milljarða lækkun á málasviði 15 og 17, og 4,8 milljarða lækkunina sem ríkisstjórnin nýtir ferðina í þegar ívilnanir til ökutækja eru færðar á milli liða þá eru 1,7 milljarður plús 4,8 milljarðar samanlagt 6,2 milljarðar kr. sem er verið að lækka stuðning við orkuskipti og loftslagsmál um á þessum tímapunkti. Þetta er svona u.þ.b. helmingur af því sem ríkisstjórnin montaði sig af í greinargerðinni, af því að þessi framlög hefðu verið aukin á síðustu árum. Frá árinu 2021 er talað um að framlög til þessara málaflokka hafi verið hækkuð um 13,1 milljarð. Nú eru þau bara lækkuð um 6,2. Hér er verið að stíga skref aftur á bak af hálfu ríkisstjórnar sem er ekki nógu metnaðarfull í loftslagsmálum. Það byggir ekki í haginn fyrir efnahagslíf framtíðarinnar.

Svo ég vitni aftur í hv. þm. Jódís Skúladóttur, af því að ég átti hér orðastað við hana fyrr í dag þar sem ég benti henni á þessa raunverulegu lækkun á framlagi til umhverfis- og orkumála í fjárlagafrumvarpinu, þá bað hún mig að vera ekki að mála svona dökka mynd af öllu. Við værum, sagði hún, á réttri leið og að standa okkur vel. Hérna er kannski rétt að segja: Jú, sum okkar eru það. Almenningur er það, hann er nefnilega býsna duglegur að stíga í sínu persónulega lífi þau skref sem eru nauðsynleg til að vinna að grænni framtíð. En stjórnvöld eru það ekki. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er ekki að standa sig í stykkinu. Hún hefur sett sér markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Við skulum láta liggja milli hluta að þetta er ekki nógu metnaðarfullt markmið, því að vísindin kalla á eitthvað í kringum 70% en 55% er markmið ríkisstjórnarinnar. En í tengslum við bráðabirgðauppgjör Umhverfisstofnunar á losun ársins 2022, sem var vel að merkja þriðja árið í röð þar sem losun jókst á Íslandi, þá reiknaði hún út að þetta 55% markmið myndi engan veginn nást með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er búin að setja niður og í stað 55% væri líklegt að 24% samdráttur myndi nást. Þetta myndu sumir segja að væri ekki að standa sig vel.

Síðan er ágætt að minna á uppgjör það sem loftslagsráð gaf út þegar það nálgaðist það að ljúka störfum núna í vor þar sem það í rauninni endurtók sömu hlutina og það hefur verið að segja ítrekað síðustu ár, án þess að mikið hafi verið á það hlustað: Það vantar markvissa loftslagsstefnu. Það vantar t.d. skilning á því hvað felst í lögfestu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, sem er eina lögfesta markmiðið sem ríkisstjórnin hefur treyst sér til að setja á blað. Loftslagsráð segir líka að langtímaáætlanir og skammtímamarkmið séu ekki samræmd. Eitt af því sem mætti hugsa sér til að ná þessari samræmingu væri ef ríkisstjórnin myndi, eins og við höfum oft kallað eftir í þessum sal, lögfesta markmið um samdrátt í losun fyrir 2030. Markmiðið sem hún setur í stjórnarsáttmála væri ágæt byrjun, bara að setja eitthvað niður þannig að það sé ekki hægt að yppta öxlum þegar Umhverfisstofnun segir að það stefni í að ríkisstjórnin skili aðeins helmingi af því sem hún segist ætla að skila, að það hafi raunverulega vigt að ríkisstjórnin sé þar að ganga á bak lögfestra markmiða. Það væri held ég meiri hvatning fyrir hana að grípa til raunverulegra aðgerða. Svo hefur ráðið ítrekað bent á að það þurfi að uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og mig langar aðeins að víkja að því vegna þess að ég fékk svo áhugavert svar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um daginn.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var fyrst lögð fram árið 2018 og miðaði þá við 40% markmið um samdrátt. Síðan var hún uppfærð árið 2020 og miðaði þá aftur við 40% samdrátt, þannig að heildarmyndin, heildarmarkmiðið hafði ekkert aukist. Nokkrum mánuðum eftir þessa uppfærslu tilkynnti forsætisráðherra síðan að Ísland ætlaði að vera samferða Evrópusambandinu í 55% markmiði um samdrátt og þá héldum við nú sum að þau myndu bara stökkva til og uppfæra aðgerðaáætlunina til samræmis við það, vegna þess að aðgerðaáætlun sem er sniðin að 40% samdrætti er aldrei að fara að skila 55% samdrætti. En það hefur látið á sér standa og ég spurði hæstv. ráðherra að því núna á síðasta vetri hvenær mætti vænta uppfærslu á aðgerðaáætluninni til að endurspegla þann aukna metnað sem ríkisstjórnin sjálf segist vera með. Ráðherrann segir, með leyfi forseta: „Samkvæmt lögum um loftslagsmál skal uppfæra áætlunina eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti.“ Hann tekur líka fram að planið sé að koma með nýja núna í kringum næstu áramót. Eins og við þekkjum örugglega flest sem höfum runnið á rassinn með verkefni þá ætlar ráðherrann að fullnýta allan þann frest sem hann getur kreist út úr kerfinu. Metnaðarfullur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefði náttúrlega gert það að sínu fyrsta verki á sínu fyrsta misseri í embætti að gera nýja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Hann hefði síðan getað látið vinna hana aftur á kjörtímabilinu. En í staðinn hefur ráðherra útvistað pólitísku ábyrgðinni á þessu til atvinnulífsins, fengið ýmsa geira atvinnulífsins til að setjast yfir sín svið og setja markmið, án þess að það sé einhver miðlæg heildarsýn á vegum ríkisins. Ríkisstjórnin skilar auðu í þessum geirasamtali. Það er alltaf byrjað á öfugum enda. Þarna hefði ráðherrann átt að setjast í embætti, uppfæra aðgerðaáætlunina, leggja síðan fyrir atvinnulífið að koma með sína þætti inn í hana og svo kannski uppfæra hana aftur og taka þetta allt saman. Í staðinn stöndum við frammi fyrir því að það verður komið fram yfir mitt kjörtímabil þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem segist vera með 55% markmið um samdrátt, verður loksins með aðgerðaáætlun sem segir að hún sé með það markmið.

Síðan langaði mig að fara í þingmálaskrá ráðherra og þar eru tvö mál sem mig langar að nefna í þessu samhengi. Annars vegar er það frumvarp um breytingu á lögum um loftslagsmál, niðurlagning loftslagssjóðs er það kallað. Þetta er frumvarp sem við þurfum að nálgast af mjög mikilli varúð því að hérna leggur ráðherra til að taka tvo sjóði sem heyra undir ráðuneytið, Orkusjóð og loftslagssjóð, og steypa þeim saman. Það er kannski hægt að skilja röksemdafærsluna eins og hún er lögð fram hérna en á sama tíma er lagt til í fjárlagafrumvarpinu að auka framlög til Orkusjóðs um þessa 7,5 milljarða sem verða ekki lengur ívilnanir í gegnum skattkerfið heldur bein framlög til fólks sem er að kaupa rafbíla. Þetta verður til þess að það verður eðlisbreyting á Orkusjóði og hann fer að þjóna allt öðrum markmiðum en áður. Það að steypa loftslagssjóði inn í það samhengi í ofanálag held ég að væri mjög varhugavert. Loftslagssjóður hefur alla burði til að vera útungunarstöð fyrir góðar hugmyndir, staður fyrir fólk, félagasamtök, lítil fyrirtæki til að sækja sprotastyrki, til að sækja styrki til að fóstra hugmyndir, til að sækja þolinmótt fjármagn sem er tilbúið til að styðja við grænar hugmyndir sem síðan þroskast yfir í eitthvað stórfenglegt í framtíðinni. Þetta hefur sjóðurinn átt dálítið erfitt með að gera vegna þess að honum hefur ekki verið búinn sá fjárhagslegi rammi sem upphaflega var lagt upp með, framlög til loftslagssjóðs eru rétt í kringum 100 milljónir á hverju ári. En við Píratar erum einmitt með breytingartillögu við fjárlög um að breyta þessu. Við leggjum til að framlagið fari upp í 800 milljónir. Þetta er hraustlegt stökk, skal ég viðurkenna, en við erum ekki að grípa þessa tölu úr lausu lofti heldur er þetta sú upphæð sem Ísland er farið að hafa í tekjur af ETS-kerfinu. Eins og kom fram í fyrirspurn sem hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra svaraði hv. þm. Bergþóri Ólasyni núna í sumar þá hafa tekjurnar sem íslenska ríkið hefur af ETS-kerfinu verið rétt yfir 800 milljónum síðustu tvö árin, virðast vera nokkuð stabílar á þeim stað eins og kerfið er í dag. Með þessu mætti segja að mengandi iðnaður á Íslandi, sem borgar náttúrlega inn í ETS-kerfið, væri að greiða til baka til grænnar nýsköpunar á landinu. Þarna værum við að sjá dálítið fallega birtingarmynd á mengunarbótareglunni. Síðan mætti skoða hvað annað væri hægt að gera með þær tekjur sem hægt er að hafa af ETS-kerfinu á næstu árum vegna þess að þetta er stjórntæki sem er búist við að verði öflugra á næstu árum, að uppboð á losunarheimildum muni afla töluvert meiri tekna á næstu árum, bæði vegna þess að til stendur að breyta reglum kerfisins en líka vegna þess að losunarheimildir eru bara farnar að hækka í verði, þetta er að verða eftirsóttari vara á markaði. Hérna er líka hægt að horfa til þess að þegar Evrópusambandið setti reglur utan um ETS-kerfið hvatti það aðildarríki til að verja alla vega hlutfalli af uppboðstekjunum beint í aðgerðir sem vinna gegn loftslagsvandanum og ég held að það sé leitun að aðgerðum sem gera það betur en nýsköpun í gegnum loftslagssjóð.

Þá er það hitt málið sem mig langar að nefna á þingmálaskrá hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og það er frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, eins og hitt nema þetta snýst um styrkingu stjórnsýslu loftslagsmála. Það er löngu tímabært mál þar sem verður lagt til að endurskoða hlutverk loftslagsráðs í þá áttina að leggja aukna áherslu á ráðgefandi hlutverk og vísindastarf auk aðhalds- og eftirlitshlutverks. Nú erum við komin í hring því að þetta er það sem ég byrjaði ræðu mína á, það sem okkur vantar svo mikið, þessa hlutlausu greinandi rödd til að hjálpa okkur að taka upplýstar og réttar ákvarðanir í þágu framtíðarinnar. Þetta er t.d. ráð sem gæti bara lagst yfir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og verið dálítið afdráttarlausara í dómum sínum um aðgerðirnar en það ráð sem við höfum í dag. En það vekur óneitanlega athygli að þetta frumvarp verði ekki lagt fram fyrr en í mars samkvæmt þingmálaskrá ráðherrans, vegna þess að ef við lítum á tímalínuna fram undan þá er núna í lok þessa árs samkvæmt ráðherranum stefnt að því að uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Fyrra loftslagsráð lauk umboði sínu núna um nýliðin mánaðamót og þá er spurning hvort ráðherra hyggist framlengja starfstíma fráfarandi loftslagsráðs, sem verði þá mögulega með veikara umboð til gagnrýnnar umfjöllunar en ella, eða hvort eigi að láta dingla í einhverju tómarúmi þangað til verður hægt að skipa samkvæmt nýjum lögum. Allt mun þetta gerast á sama tíma og verið er að leggja lokahönd á lykilstjórntækið í aðgerðum ríkisins í loftslagsmálum; aðgerðaáætlunina.

Þetta er náttúrlega enn eitt dæmið um að það hafi verið farið of seint og of hægt af stað í tíð núverandi ráðherra og enn eitt dæmið um það að á sama tíma og það ríkir neyðarástand í loftslagsmálum þá dregur ríkisstjórnin lappirnar í því að grípa til aðgerða. Það er kannski það sem situr eftir að loknum lestri þessa fjárlagafrumvarps, sem er eins og síðustu ár ekki að gera nóg í aðgerðum í þágu umhverfis- og loftslagsmála. Það er neyðarástand á jörðinni, það er neyðarástand í lofthjúpnum, en það er líka að nálgast það að vera neyðarástand í ríkisstjórninni eða af völdum hennar. Það er ekki nóg með að mannkynið sé búið að spúa út of miklum koltvísýringi á síðustu áratugum og öldum heldur sitjum við uppi með ríkisstjórn sem trúir því í hjartans einlægni, miðað við það hvernig hún talar, að hún sé að standa sig rosalega vel — en svo bara er hún það ekki. Það eru engar tölur sem sýna að hún sé að stefna í rétta átt. Það eru engar tölur sem sýna að ríkisstjórnin sé að gera nógu vel, en meðan hún trúir því þá grípur hún ekki til róttækari aðgerða og það er pólitískt neyðarástand.