154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:43]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég hef miklar áhyggjur af því. Ég hef líka miklar áhyggjur af dvínandi trausti til stjórnvalda. Ég hef áhyggjur af því að það sé ríkisstjórn við störf sem er frekar óvinsæl. Mér þykir furðulegt að það sé talið vera allt í lagi að halda áfram þegar ríkisstjórnin nýtur svo lítils stuðnings í raun og veru. Það sem ég hef mestar áhyggjur af, sem ég finn ofboðslega sterkt fyrir í samfélagsumræðunni og mikið hefur verið rætt í þessum þingsal, er þessi pólarísering eða skautun sem er að eiga sér stað. Þetta á að miklu leyti rætur að rekja til þess að traust fólks til stjórnvalda er að dvína. Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð og þessir flokkar ákváðu fyrst að vera saman í ríkisstjórn árið 2017 var mikið talað um að efla traust til stjórnmála og efla þannig líka traust til opinberra stofnana og sérfræðinga af því að þetta helst allt í hendur. Það er eins og alger uppgjöf hafi orðið gagnvart því verkefni. Af því að við erum að tala um fjárlög og vangetu til að takast á við fátækt og menntakerfið og allt þetta, þá er þetta auðvitað allt hluti af heildarsamhenginu. Stóra myndin er sú að þetta helst í hendur. Ef við erum að skilja fólk út undan, ef við erum að jaðarsetja fólk, t.d. fátækt fólk, og tryggjum ekki að það hafi sömu tækifæri og aðrir þjóðfélagshópar þá erum við að ýta undir þetta vantraust og þessa skautun. Það er partur af þessu. Já, ég hef því miklar áhyggjur.