154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Mig langar í minni seinni ræðu að fara aðeins dýpra ofan í tvo þætti sem ég ræddi í gær. Frekar en að skoða efnahagsástandið almennt þá boraði ég mig ofan í orku- og umhverfismálin og loftslagsmálin sem falla þar undir. Mig langar að byrja á því að ræða hér að við þurfum að veita stuðningi markvissar þangað sem hann gerir mest gagn, að beita ívilnunum þar sem ívilnana er þörf.

Tökum nokkur dæmi. Bílaleigurnar, sem fengu milljarðsstuðning til að kaupa rafbíla á þessu ári á sama tíma og þær skila milljarðahagnaði, er þörf til að veita sérstaklega fjárhagslega hvata til að fá þau fyrirtæki til að kaupa rafmagnsbíla frekar en jarðefnaeldsneytisbíla eða erum við kannski komin á þann stað að þurfa að hrinda í framkvæmd því sem ríkisstjórnin segist ætla að gera sem er að banna nýskráningu bensínbíla? Samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum á það að gerast 2030, sem var kynnt með pompi og prakt fyrir fjórum, fimm árum sem mjög róttæk aðgerð en er núna að koma í ljós að leiðir eiginlega af sjálfu sér. Markaðurinn verður bara farinn 2030. Ef við ætlum að láta stjórnvöld beita sér í þágu grænna umskipta þarf að færa þessi tímamörk nær okkur. Við þurfum að stefna að því að banna nýskráningu dísil- og bensínbíla, segjum 2025.

Hvað gerum við síðan í millitíðinni þegar það vantar mögulega ný ökutæki til að fylla það skarð sem myndast? Það er einmitt það sem hefði átt að ræða á þessum fimm árum þar sem stjórnvöld voru búin að ákveða að banna nýskráningu bensín- og dísilbíla. Það nefnilega vantar svo mikið að setja fast mark, að fastsetja að nú skuli hætt að nýskrá ökutæki af þessari gerð, og setjast síðan niður með þeim sem málið snerta; setjast niður með bílasölum, bílaleigum, olíufyrirtækjum — ætli það megi ekki tala við þau líka? — setjast niður með þeim og segja: Hér er markmið stjórnvalda fyrir samfélagið allt. Hvernig getum við náð þessu saman? Í staðinn erum við með markmið í aðgerðaáætlun sem ekkert hefur verið gert til þess að stefna beinlínis að. Það er bara beðið með að útfæra það í lögum einhvern tímann seinna. Væntanlega er það í tíð næstu ríkisstjórnar sem það á að gerast. Fyrir vikið er innflutningur á bensín- og dísilbílum of mikill. Jú, við erum, eins og hefur verið bent á, næstduglegust að nýskrá hreinorkubíla í heimi en við erum líka bara fjári dugleg að nýskrá alla hina bílana. Það er aðeins farið að síga niður en engu að síður voru — nú þarf ég að muna tölurnar, forseti. Á síðasta ári voru nýskráðir um 13.000 bílar ef ég man rétt. Eigum við að segja að 40% hafi verið rafmagnsbílar? Mig minnir það. Meiri hlutinn gekk fyrir jarðefnaeldsneyti. Þessu þurfum við að flýta og við þurfum að spyrja okkur hvort það að gefa bílaleigum milljarð sé endilega skilvirkasta leiðin til að ná þessu markmiði.

Svo hafa ívilnanir líka verið í fréttum síðustu daga vegna úthlutunar úr Orkusjóði sem fyrir helgi veitti styrki upp á í kringum milljarð. Þar af rann þriðjungur til býsna stöndugra fyrirtækja. Samherji, Arnarlax og Ísfélag Vestmannaeyja skiptu sín á milli þriðjungi af úthlutuninni, tóku um 300 milljónir til sín til þess að endurnýja tækjakost og ekki endilega þannig að hann verði algerlega hreinorku. Arnarlax fékk t.d. styrk til að útbúa sláturbát með tvinnvél sem þýðir að jú, vissulega gengur hún fyrir rafmagni að einhverjum hluta en einhver og jafnvel töluverður hluti orkunnar verður fenginn með bruna jarðefnaeldsneytis. Þessi upphæð er kannski ekkert gríðarlega stór en þetta er líka upphæð sem fyrirtæki sem skila milljarðahagnaði á ári ættu kannski bara að geta axlað sjálf sem hluta af samfélagslegri ábyrgð sinni og því að taka saman þátt í því að ná þeim grænu markmiðum sem við viljum ná sem samfélag.

Svo að við setjum þessar upphæðir í samhengi þá eru 300 millj. kr. jafn mikið og ríkið er að verða af í virðisaukaskatti á reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum á ári nema þar erum við að tala um þúsundir einstaklinga sem njóta þess. Nú er ég ekki með kolefnisútreikninginn, ábataútreikninginn, í hausnum enda efast ég um að hann hafi nokkurs staðar verið gerður í stjórnkerfinu en það kæmi mér ekki á óvart að fólkið sem fær litla styrki til að kaupa sér góð reiðhjól og rafmagnsreiðhjól, og leggur þar með mengandi bílnum sínum dagsdaglega, að samanlagt skili það væntanlega töluvert meiri samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en þessi þrjú stórfyrirtæki sem fengu sömu upphæð og allir þessir einstaklingar. Það er bara eðlilegt að hvetja atvinnulífið áfram en mér finnst eðlilegt að við hvetjum almenning meira áfram. Þess vegna held ég að við ættum að skoða þessar ívilnanir til reiðhjóla- og rafmagnsreiðhjólakaupa og hækka þar öll viðmiðunarmörk eins mikið og við getum. Núna er hámarkendurgreiðsla virðisaukaskatts á rafmagnsreiðhjóli, ef ég man rétt, 96.000 kr. sem þýðir að ef hjólið er komið yfir hálfa milljón ertu farinn að greiða til ríkisins virðisaukaskatt af hjólinu. Rafmagnsreiðhjól, þau góðu, þau sem fólk notar í öllu slabbi, öllum stormum, allt árið um kring, þau kosta orðið hálfa og heila milljón, hvað þá ef við erum að tala um farmhjólin sem við sjáum fjölskyldur nota til að ferja tvo krakka á bögglaberanum eða vera með — hvað köllum við þetta? Þetta er ekki skott heldur svona geymslupallur framan á þar sem er hægt að geyma vörur, geyma börn, geyma eiginmann á leiðinni heim af skralli. Þetta eru hjól sem kosta eina, eina og hálfa, tvær milljónir. Þau eru farin að slaga hátt í verðið á mjög ódýrum bíl en þjóna líka sama hlutverki. Þau ná utan um allar þær þarfir sem fólk hefur fyrir samgöngutæki án þess að gera sömu kröfur til samgönguinnviða og bílar gera, án þess að valda hér umferðarteppu á morgnana, án þess að slíta malbiki og valda svifryksmengun, vegna þess að þetta eru allt vandamál sem rafbílar eru jafn slæmir með og bensínbílar. Þó að við losnum við losun gróðurhúsalofttegunda með því að skipta yfir í rafbíla stendur eftir að við þurfum að fækka bílum, sérstaklega í borgarumhverfinu, og það gerum við best með því að hjálpa almenningi, einstaklingum, að kaupa hjól. Þetta er ekkert flóknara, vegna þess að leiðirnar til að taka þátt í grænum umskiptum eru svo ofboðslega einfaldar. Flest kunnum við að hjóla. Flest getum við gengið á milli staða. Þau okkar sem geta þetta og vilja eiga að fá hvatningu til þess frá hinu opinbera í miklu meiri mæli en er í dag.

Þetta var nú bara fyrsta atriðið sem ég ætlaði að fara yfir af tveimur þannig að ég held að ég verði að láta þar við sitja. Ætli ég komi hinu þá ekki bara að í 2. umr. Mig langar rétt að lokum að benda forseta á breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram af þingflokki Pírata hér við 1. umr. sem snúa að þessum málum ýmsum. Þar er t.d. gerð tillaga um að styðja Strætó og aðrar almenningssamgöngur til orkuskipta. Strætó hafði orkuskiptasjóð fyrir Covid sem þurfti að éta af til að komast í gegnum afleiðingar Covid þannig að hann nýttist ekki til orkuskipta. Þarna skulum við stíga inn og afhenda Strætó (Forseti hringir.) dálítið feitan tékka til að við getum losnað við dísilspúandi vagnana af götunum frekar en að eyða mörgum árum í að rífast um hvað sé ríkis og sveitarfélaga (Forseti hringir.) þegar kemur að því að fjármagna sameiginlega grunnþjónustu samfélagsins.